Kvartað var yfir synjun dómsmálaráðuneytisins á beiðni um gjafsókn. Synjunin var byggð á umsögn gjafsóknarnefnd sem mælti ekki með gjafsókn á þeim grundvelli að málstaður viðkomandi gæfi ekki nægilegt tilefni til málskots.
Ekki varð annað ráðið af umsögn gjafsóknarnefndar og ráðuneytisins en að lagt hefði verið einstaklingsbundið mat á það hvort beiðnin uppfyllti skilyrði laga um meðferð einkamála. Ekkert í gögnum málsins benti til að nefndin hefði sett skilyrði eða viðmið sem afnámu eða þrengdu um of það mat sem áskilið er að fari fram að þessu leyti. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að líta svo á að mat gjafsóknarnefndar á málskotinu hefði verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að öðru leyti í andstöðu við lög þannig að efni væru til að gera athugasemdir við umsögn nefndarinnar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. september 2023.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 15. maí sl. fyrir hönd A er lýtur að synjun dómsmálaráðuneytisins 4. maí sl. á beiðni hennar um gjafsókn vegna kæru á úrskurði Héraðsdóms Reykjaness [...] sl. í máli nr[...]. Með úrskurðinum var tekin til greina krafa barnsföður A um að sonur þeirra yrði tekin úr umráðum hennar og afhentur honum með beinni aðfarargerð. Var beiðni hennar synjað þar sem gjafsóknarnefnd mælti ekki með gjafsókn á þeim grundvelli að málstaður A gæfi ekki nægilegt tilefni til málskots af hennar hálfu. Í kvörtuninni eru einkum gerðar athugasemdir við mat gjafsóknarnefndar sem þér teljið brjóta gegn meginreglunni um skyldubundið mat stjórnvalda þar sem gjafsóknarnefnd hafi afnumið eða þrengt óhóflega það einstaklingsbundna mat sem henni ber að leggja á málstað gjafsóknarbeiðanda.
Í tilefni af kvörtun yðar var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 5. júlí sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti tilteknar upplýsingar og skýringar sem bárust 25. sama mánaðar. Þar sem þér hafið fengið afrit af framangreindum bréfum tel ég ekki þörf á að rekja efni þeirra nánar nema að því leyti sem nauðsynlegt er fyrir umfjöllun mína hér á eftir.
II
1
Um skilyrði gjafsóknar er fjallað í 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Í upphafi málsgreinarinnar er kveðið á um það grundvallarskilyrði að gjafsókn verði aðeins veitt gefi málstaður umsækjanda „nægilegt tilefni“ til málshöfðunar eða málsvarnar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar, þ.m.t. hvenær nægilegt tilefni sé til veitingar gjafsóknar.
Með stoð í 2. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur ráðherra sett reglugerð nr. 45/2008, um skilyrði gjafsóknar og starfshætti gjafsóknarnefndar. Í 4. gr. a reglugerðarinnar er fjallað um þau meginsjónarmið sem hafa skal hliðsjón af við mat á því hvort nægilegt tilefni sé til málsóknar eða málsvarnar. Samkvæmt 2. tölulið greinarinnar skal hafa hliðsjón af því hvort málsefnið sé þannig að nokkrar líkur séu á því að málið vinnist fyrir dómi. Er þar m.a. heimilt að horfa til þess hvort dómstólar hafi áður leyst úr sambærilegu ágreiningsefni. Samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar um mat á tilefni til gjafsóknar fyrir æðra dómstigi ber jafnframt að hafa hliðsjón af dómsniðurstöðu og ástæðum áfrýjunar. Verður þá að líta svo á ákvæðið eigi einnig við um annað málskot til æðri réttar svo sem með kæru.
2
Með 126. gr. laga nr. 91/1991 hefur löggjafinn falið gjafsóknarnefnd að líta til ákveðinna sjónarmiða er lúta m.a. að líkum þess að málarekstur muni bera árangur. Í þeim tilvikum sem óskað er eftir gjafsókn fyrir æðra dómstigi ber gjafsóknarnefnd þannig að leggja mat á hvort nokkrar líkur séu á því að mál muni falla á annan veg miðað við fyrirliggjandi úrlausn héraðsdóms og málskotsgrundvöllinn hverju sinni. Að virtum lagagrundvelli gjafsóknar sem og reglugerð nr. 45/2008 hefur umboðsmaður Alþingis talið rétt að ljá gjafsóknarnefnd nokkurt svigrúm við mat á því hvort skilyrði 1. mgr. 126. gr. séu uppfyllt, sbr. til hliðsjónar álit setts umboðsmanns Alþingis 26. apríl 2010 í máli nr. 5746/2009.
Þá leiðir það enn fremur af hlutverki umboðsmanns Alþingis, eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þegar löggjafinn hefur falið stjórnvöldum mat á tilteknum atriðum beinist athugun umboðsmanns fyrst og fremst að því að kanna hvort stjórnvald hafi lagt fullnægjandi grundvöll að máli, hvort það hafi byggt mat sitt á málefnalegum sjónarmiðum og dregið forsvaranlegar ályktanir af gögnum málsins, auk þess að það hafi gætt að réttum málsmeðferðarreglum að öðru leyti. Í slíkum tilvikum felur athugun umboðsmanns ekki í sér að lagt sé nýtt eða sjálfstætt mat á málið.
Í umsögn gjafsóknarnefndar er vísað til þess að ekki sé sjálfgefið að gjafsókn verði veitt fyrir Landsrétti enda þótt hún hafi fengist fyrir héraðsdómi. Sönnunarfærsla hafi farið fram fyrir héraðsdómi og fyrir liggi úrskurður hans. Samkvæmt framanröktu, að virtum þeim gögnum sem lögð hefðu verið fyrir nefndina og með hliðsjón af því að forsjár- og umgengnismál vegna barnsins hefði nýlega fengið umfjöllun fyrir öllum dómstigum og með vísan til þess mats gjafsóknarnefndar að umsækjandi hefði ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á að líklegt væri að niðurstöðu héraðsdóms yrði hrundið, var það mat nefndarinnar að ekki væri nægilegt tilefni til máskots af hálfu umsækjanda.
Í skýringum dómsmálaráðuneytisins til umboðsmanns 25. ágúst sl. er jafnframt vísað til þess að auk úrskurðar Héraðsdóms Reykjaness [...] sl. hafi dómstólar áður fjallað um mál sonar A og samband hans við foreldra sína. Því næst tók ráðuneytið eftirfarandi fram:
[Í] framangreindum dómsmálum hefur verið fjallað ítarlega um þær röksemdir [A] er varða afstöðu drengsins til föður síns, ætlað ofbeldi föður gagnvart drengnum og opna lögreglurannsókn. Í öllum málunum var komist að þeirri niðurstöðu að faðir skyldi í það minnsta njóta umgengni við drenginn og varð það raunar endanleg niðurstaða Landsréttar að lögheimili drengsins skyldi vera hjá föður. Þá skal sérstaklega í þessu sambandi bent á dómsúrlausnir Héraðsdóms [...] og Landsréttar um gildi úrskurðar barnaverndarnefndar en í þeim er meðal annars fjallað um málsatvik eftir að Landsréttur komst að endanlegri niðurstöðu um forsjá, umgengni og lögheimili drengsins.
Við mat á þeim sjónarmiðum sem sérstaklega eru tiltekin í erindi umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins telur ráðuneytið ljóst að gjafsóknarnefnd hafi litið til þess að samskonar röksemdum hafi verið teflt fram áður og þær hafi hlotið umfjöllun í mörgum dómsmálum og á öllum dómstigum. Þá hafi [A] ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á að líklegt væri að niðurstaða Landsréttar yrði önnur en hin kærða niðurstaða héraðsdóms og væri þá litið til niðurstöðu dómstóla í eldri málum þar sem ítarlega hefur verið fjallað um hagi barnsins og samband þess við foreldra þess.
Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins og að virtum skýringum dómsmálaráðuneytisins tel ég mig ekki hafa forsendur til að líta svo á að mat gjafsóknarnefndar á málskoti A hafi verið bersýnilega óforsvaranlegt eða að öðru leyti í andstöðu við lög þannig að efni séu til að gera athugasemdir við umögn gjafsóknarnefndar eða synjun dómsmálaráðuneytisins við veitingu gjafsóknar. Hef ég þar meðal annars í huga það svigrúm sem játa verður gjafsóknarnefnd að þessu leyti.
Hvað snertir athugasemdir yðar um að brotið hafi verið gegn meginreglunni um skyldubundið mat tek ég fram að ekki verður annað ráðið af umsögn gjafsóknarnefndar og skýringum ráðuneytisins en að lagt hafi verið einstaklingsbundið mat á það hvort gjafsóknarbeiðni A hafi uppfyllt skilyrði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að gjafsóknarnefnd hafi sett skilyrði eða viðmið sem afnámu eða þrengdu um of það mat sem áskilið er að fari fram að þessu leyti.
III
Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.