Kvartað var yfir framtaksleysi byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Árborgar með vísan til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem hefði komist að því að óhæfilegur dráttur hefði orðið á máli.
Í samskiptum umboðsmanns við sveitarfélagið kom fram að byggingarfulltrúi taki á næstunni afstöðu til beiðni um beitingu þvingunarúrræða í málinu. Að svo stöddu var því ekki ástæða til að aðhafast frekar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 7. september 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 15. maí sl. yfir því að erindi yðar 19. maí 2022 til byggingarfulltrúa sveitarfélagsins Árborgar þar sem farið var fram á að gripið yrði til tiltekinna aðgerða vegna skjólveggs, sem nágranni yðar hefur reist, hafi ekki enn verið afgreitt þrátt fyrir úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 18/2023 frá 29. mars sl. Með úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að óhæfilegur dráttur hefði orðið á meðferð málsins. Beindi nefndin því til byggingarfulltrúans að taka fyrirliggjandi erindi yðar til endanlegrar afgreiðslu án ástæðulauss dráttar.
Í tilefni af kvörtuninni var mannvirkja- og umhverfissviði sveitarfélagsins ritað bréf 19. maí sl. þar sem þess var óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvað liði afgreiðslu og meðferð erindisins. Þess var jafnframt óskað að að upplýst yrði um hvort og þá hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar af hálfu sveitarfélagsins í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar auk gagna sem vörpuðu ljósi á með hvaða hætti brugðist hefði verið við úrskurðinum.
Í svari sveitarfélagsins 29. ágúst sl. segir að starfsfólk þess hafi átti í samskiptum við yður og nágranna yðar í kjölfar úrskurðarins. Þar hefði m.a. komið fram af hálfu nágranna yðar að mögulegt kynni að vera að samkomulag næðist um úrlausn málsins á milli yðar og hans. Fylgdu svari sveitarfélagsins afrit af tölvupóst-samskiptum sveitarfélagsins og nágranna yðar að þessu leyti. Svarinu fylgdi þó jafnframt minnisblað vegna símtals starfsmanns sveitar-félagsins við yður en af því verður ráðið að þér hafið tjáð starfsmanninum að ekkert slíkt samkomulag hefði náðst. Þá segir í svari sveitarfélagsins að þar sem engin sátt hefði náðst í málinu muni byggingarfulltrúi taka afstöðu til beiðni yðar um beitingu þvingunar-úrræða vegna skjólveggjarins. Mun ákvörðun að því leyti liggja fyrir á næstunni.
Þar sem kvörtun yðar lýtur að töfum á afgreiðslu málsins og í ljósi þess, sem fram kemur í svari sveitarfélagsins til umboðsmanns um framvindu þess, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari tafir á meðferð málsins getið þér leitað til mín á nýjan leik teljið þér ástæðu til þess.