Kvartað var yfir töfum á svörum frá Sveitarfélaginu Ölfusi við erindum.
Þar sem málið var í viðeigandi farvegi í stjórnsýslu sveitarfélagsins og viðkomandi kunnugt um það var ekki tilefni til að aðhafast frekar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. ágúst 2023.
Vísað er til erindis yðar til umboðsmanns Alþingis 28. júlí sl. sem þér beinið að Sveitarfélaginu Ölfusi og lýtur að töfum á svörum við erindum yðar er varða námskrá og uppeldisstefnu grunnskóla í sveitarfélaginu. Í kvörtuninni kemur fram að upphaflegt erindi yðar hafi verið sent skólastjóra grunnskóla Þorlákshafnar 26. ágúst 2022 en að hún hafi ekki svarað tölvubréfum yðar frá 10. mars á þessu ári. Í framhaldi af samskiptum yðar við skólastjóra hafið þér leitað til sveitarfélagsins en bæjarstjóri hafi vísað erindi yðar aftur til grunnskólans 14. júlí sl. Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að þér teljið að þér munið ekki fá fullnægjandi efnisleg svör við erindinu með þeim hætti.
Hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald á rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að svara sé ekki vænst. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki í óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í því. Í reglunni felst á hinn bóginn ekki að stjórnvöldum sé skylt að svara efnislega öllum almennum erindum sem þeim berast heldur ræðst réttur aðila að þessu leyti af öðrum réttarreglum, svo sem leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar, vönduðum stjórnsýsluháttum sem og af eðli erindisins.
Samkvæmt því sem kemur fram í kvörtun yðar og gögnum sem henni fylgdu er erindi yðar í farvegi í stjórnsýslu sveitarfélagsins og yður hefur verið gert kunnugt um það. Eftir að hafa kynnt mér erindi yðar og fyrirliggjandi samskipti við sveitarfélagið tel ég ekki tilefni til að aðhafast í tilefni af kvörtun yðar. Ég bendi yður hins vegar á að samkvæmt 4. gr. laga nr. 91/2008, um grunnskóla, hefur mennta- og barnamálaráðherra eftirlit með því að sveitarfélög uppfylli þær skyldur sem lögin, reglugerðir og reglur settar samkvæmt þeim og aðalnámskrá grunnskóla kveða á um. Ef þér teljið að starfsemi grunnskólans í Þorlákshöfn sé ekki í samræmi við þær lagareglur getið þér því freistað þess að beina erindi þar að lútandi til mennta- og barnamálaráðuneytisins. Með þeirri ábendingu hef ég ekki tekið neina afstöðu til þess hvaða viðbrögð slíkt erindi ætti að hljóta.
Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið.