Skattar og gjöld. Álagning stöðubrotsgjalds.

(Mál nr. 12189/2023)

Kvartað var yfir stöðubrotsgjaldi sem Bílastæðasjóður Reykjavíkur lagði á því bifreið var lagt í öfuga akstursstefnu. Byggðist kvörtunin á því að ómögulegt hefði verið að leggja bifreiðinni hægra megin þar sem vörubifreið með eftirvagn hefði verið lagt þar.

Umboðsmaður benti á að þótt bílastæði hægra megin væri upptekið mætti snúa bifreið við til að leggja hinum megin í samræmi við lög. Ekki væri ástæða til að gera athugasemdir við niðurstöðu bílastæðasjóðs.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 12. maí sl. yfir stöðubrotsgjaldi sem Bíla­stæðasjóður Reykjavíkur lagði á yður 8. maí sl. fyrir að hafa lagt bifreiðinni [...] í öfuga átt miðað við akstursstefnu við [...] í Reykjavík í and­stöðu við fyrirmæli 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Í kvörtun yðar byggið þér einkum á því að ómögulegt hafi verið að leggja bifreiðinni [...] hægra megin enda hefði vörubifreið með eftirvagn verið lagt í bifreiðastæðin þeim megin [...].

Í tilefni af kvörtun yðar var umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar ritað bréf 19. maí sl. þar sem óskað var eftir gögnum málsins. Svar Reykjavíkurborgar barst 12. júní sl.

Í 1. málslið 2. mgr. 28. gr. umferðarlaga er mælt fyrir um að á vegi megi einungis stöðva ökutæki eða leggja því hægra megin. Er það í samræmi við meginreglu 1. mgr. 18. gr. laganna þess efnis að við akstur á vegum gildi hægri umferð. Í 4. málslið 2. mgr. 28. gr. laganna segir að stöðva eða leggja megi ökutæki vinstra megin ef ómögulegt reynist að stöðva eða leggja því hægra megin á vegi. Ekki verður séð að þegar bifreiðastæði, sem eru ökumanni á hægri hönd, eru í notkun sé ökumanninum ómögulegt að leggja hægra megin vegar í skilningi málsliðarins, s.s. með því að snúa bifreið sinni við. Að öllu ofangreindu virtu og eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar og ljósmyndir af vettvangi tel ég ekki efni til að gera athugasemdir við téða ákvörðun.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.