Orku- og auðlindamál. Starfssvið umboðsmanns Alþingis.

(Mál nr. 12232/2023)

Kvartað var yfir því að Landsvirkjun hefði falið einkahlutafélagi að miðla viðskiptum með raforku fyrirtækisins á heildsölumarkaði.

Þar sem Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. telst það ekki til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga heldur einkaaðili. Ekki voru því skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. júní 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar A 7. júní sl. yfir því að Landsvirkjun hafi falið einkahlutafélaginu X að miðla viðskiptum með raforku fyrirtækisins á heildsölumarkaði.

Í tilefni af kvörtun yðar skal tekið fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, er Landsvirkjun sameignarfyrirtæki ríkissjóðs og Eignarhluta ehf. og telst því ekki til stjórnsýslu ríkis eða sveitarfélaga í skilningi laga nr. 85/1997 heldur einkaaðili. Kvörtun yðar beinst þannig að starfsemi aðila sem starfar á einkaréttarlegum grundvelli þótt hann sé að mestu leyti í eigu ríkissjóðs. Brestur því lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á málinu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.