Kvartað var yfir viðbrögðum Tryggingastofnunar við erindi vegna m.a. endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna og búsetuhlutfall við útreikning réttinda.
Ekki varð betur séð en stofnunin hefði brugðist við athugasemdunum og leitast við að svara spurningum. Ekki var því tilefni til að umboðsmaður gerði athugasemdir við það. Var viðkomandi jafnframt bent á að mögulegt væri að leita til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvörðunartöku stofnunarinnar í máli viðkomandi.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 26. maí 2023.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 26. apríl sl. Af henni verður ráðið að hún lúti að viðbrögðum Tryggingastofnunar ríkisins 20. febrúar sl. við erindi yðar 5. janúar sl. vegna ákvarðana sem stofnunin hefur tekið í málum yðar og varða m.a. endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna á tilteknu árabili og búsetuhlutfall yðar við útreikning réttinda yðar til greiðslna frá stofnuninni.
II
Í erindi yðar til Tryggingastofnunar 5. janúar sl. eru gerðar margvíslegar athugasemdir er varða fjölda ákvarðana stofnunarinnar í málum yðar sem ég ræð að hafi verið teknar á árabilinu 2014 til 2021. Lúta athugasemdir yðar m.a. að því að stofnunin hafi ranglega haldið eftir skattgreiðslum yðar við útreikning bóta og misvísandi ákvörðunum stofnunarinnar vegna áranna 2014 til 2019. Þá er þess farið á leit við stofnunina að hún endurreikni bætur yðar á grundvelli nýrra gagna í málinu, m.a. læknisvottorða, tiltekins eyðublaðs frá Vinnumálastofnun og lögheimilisvottorðs útgefnu af Þjóðskrá Íslands. Loks eru gerðar athugasemdir við útgáfu svokallaðs E205 vottorðs.
Eftir að hafa kynnt mér svör stofnunarinnar 20. febrúar sl. fæ ég ekki betur séð en að brugðist hafi verið við athugasemdum yðar og leitast við að svara þeim spurningum sem færðar eru fram í bréfi yðar og varða forsendur téðra ákvarðana og verklag stofnunarinnar í því sambandi. Að þessu virtu tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við efni svara stofnunarinnar að þessu leyti.
Hvað varðar beiðni yðar um endurreikning bóta kemur fram í svari stofnunarinnar að hún hafi tekið afstöðu til þess hvort tilefni væri til endurupptöku ákvörðunar hennar um búsetuhlutfall 31. janúar 2020 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi hins vegar verið afstaða stofnunarinnar að svo væri ekki og var beiðni yðar um endurupptöku því hafnað. Í bréfinu er yður leiðbeint um kæruleið vegna synjunar um endurupptöku til úrskurðarnefndar velferðarmála.
III
Eftir að hafa kynnt mér kvörtun yðar að öðru leyti fæ ég ekki betur séð en að hún lúti í grunninn að efni téðra ákvarðana Tryggingastofnunar á tilteknu árabili sem þér teljið reistar á röngum forsendum. Af því tilefni tel ég rétt að fara nokkrum orðum um þau skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt til þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1987, um umboðsmann Alþingis segir að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þá er í 3. mgr. 6. gr. gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt.
Af kvörtun yðar og samskiptum yðar við Tryggingastofnun verður ekki betur séð en að athugasemdir í kvörtun yðar beinist að stjórnvaldsákvörðunum stofnunarinnar í málum yðar virðast hafa verið teknar á árunum 2014 til 2021 og falla þær því utan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997. Þá verður ekki heldur ráðið af kvörtun yðar hvort þér hafið kært téðar ákvarðanir til úrskurðarnefndar velferðarmála en ég fæ ekki annað ráðið en að þær ákvarðanir sem kvörtunin beinist helst að séu kæranlegar til hennar, sbr. 13. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Ég nefni þetta vegna þess skilyrðis sem mælt er fyrir um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 en tek fram að ef þér hafið leitað með mál yðar til nefndarinnar og liggi fyrir úrskurður hennar sem kveðinn var upp innan framangreinds ársfrests getið þér leitað til mín með sérstaka kvörtun þar að lútandi. Hið sama á við um synjun stofnunarinnar á beiðni yðar um endurupptöku sem yður var tilkynnt í bréfi þess 20. febrúar sl. Að öllu framangreindu virtu eru ekki skilyrði til þess að ég fjalli um kvörtun yðar að því marki sem hún snýr að téðum ákvörðunum Tryggingastofnunar.
IV
Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um erindi yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmanns Alþingis.