Kvartað var yfir því að fjarnemum við Háskólann á Akureyri beri að greiða sama skrásetningargjald og staðnemar vegna innritunar í skólann þrátt fyrir að þurfa að greiða sérstök próftökugjöld ef þeir vilji þreyta próf í sinni heimabyggð. Þar af leiðandi standi þeir ekki jafnfætis staðnemum.
Ekki varð ráðið að athugsemdirnar hefðu verið bornar undir rektor skólans og eftir atvikum háskólaráð. Að svo stöddu voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. mars 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 10. mars sl. en af henni má ráða að hún beinist að því að fjarnemum við Háskólann á Akureyri beri að greiða sama skrásetningargjald og staðnemar vegna innritunar í skólann þrátt fyrir að þurfa að greiða sérstök próftökugjöld ef þeir vilja þreyta próf í sinni heimabyggð. Standi þeir því ekki jafnfætis staðnemum.
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, gilda lögin meðal annars um Háskólann á Akureyri sem rekinn er sem opinber háskóli og lýtur yfirstjórn háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 85/2008 er stjórn háskóla falin háskólaráði og rektor. Er háskólaráði m.a. falið almennt eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og ber ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Þá er í 2. mgr. sömu greinar kveðið á um að háskólaráð fari með úrskurðarvald í málefnum skólans. Þá er í 4. mgr. 24. gr. kveðið á um að háskólaráð setji nánari reglur um gjaldtöku og ráðstöfun gjalda, m.a. skrásetningargjalda, samkvæmt greininni. Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laganna er rektor formaður háskólaráðs. Hann er yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og hefur frumkvæði að því að háskólaráð marki sér heildarstefnu í málefnum háskólans. Rektor ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi háskólans, þ.m.t. ráðningar- og fjármálum einstakra skóla og stofnana. Hann ber ábyrgð á gerð starfs- og rekstraráætlana og að þær séu samþykktar af háskólaráði. Á milli funda háskólaráðs fer rektor með ákvörðunarvald í öllum málum háskólans.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta skjóta máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.
Ég fæ ekki ráðið af kvörtun yðar að þér hafið borið athugasemdir yðar varðandi fyrirkomulag fjarnáms og gjaldtöku skólans, undir rektor Háskólans á Akureyri og eftir atvikum háskólaráð, sem fara samkvæmt ofanröktum lagaákvæðum með yfirstjórn háskólans. Í ljósi þess að afstaða þessara aðila liggur ekki fyrir og með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég ekki rétt að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu. Ef þér teljið yður enn rangsleitni beitta að fenginni niðurstöðu yfirstjórnar Háskólans á Akureyri, getið þér leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.
Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.