Kvartað var yfir niðurstöðum héraðsdóms og Landsréttar í máli sem höfðað var vegna uppsagnar.
Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til málsmeðferðar eða niðurstöðu dómstóla í dómsmálum voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um erindið.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 13. febrúar 2023.
Vísað er til kvörtunar yðar 6. febrúar sl. yfir niðurstöðum héraðsdóms og Landsréttar í máli, sem þér höfðuðuð, vegna uppsagnar yðar hjá [...]. Nánar tiltekið virðist kvörtunin annars vegar lúta að niðurstöðu og sönnunarmati dómstóla og hins vegar að ætluðum röngum framburði vitnis fyrir dómi. Þá gerið þér ýmsar athugasemdir við framgöngu skólameistara skólans í aðdraganda þess að yður var sagt upp.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélag á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga en samkvæmt b-lið 4. mgr. sömu greinar tekur það ekki til starfa dómstóla. Í samræmi við síðastnefnda ákvæðið fellur það utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um málsmeðferð eða niðurstöður dómstóla í dómsmálum, þ. á m. mat dómstóla á sönnunargildi framburða vitna. Það eru því ekki uppfyllt lagaskilyrði til þess að ég fjalli um erindi yðar.
Hvað önnur atriði í kvörtun yðar snertir tek ég fram að samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 skal kvörtun borin fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem ég fæ ekki betur séð en að samskipti yðar við skólameistara skólans hafi átt sér stað á árinu 2018 eru ekki skilyrði að lögum til þess að ég taki kvörtun yðar að þessu leyti til meðferðar.
Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið.