Sjávarútvegur.

(Mál nr. 11914/2022)

Kvartað var yfir Samgöngustofu vegna ætlaðrar rangrar lögskráningar viðkomandi um borð í tiltekið skip sem hefði haft áhrif á endurútreikning Vinnumálastofnunar á atvinnuleysisbótum.  

Þar sem ákvörðun Samgöngustofu hafði ekki verið borin undir innviðaráðuneytið né ákvörðun Vinnumálastofnunar undir úrskurðarnefnd velferðarmála voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari meðferðar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. nóvember sl. yfir Samgöngustofu vegna ætlaðrar rangrar lögskráningar yðar um borð í tiltekið skip af hálfu stofnunarinnar. Í kvörtuninni og fylgiskjölum hennar kemur fram að Samgöngustofa hafi synjað erindi yðar um að lögskráningu yðar á skipið yrði breytt fyrir nánar tiltekna daga sem þér hélduð fram að skipið hefði ekki verið á sjó. Einnig kemur fram að endurútreikningur Vinnumálastofnunar á atvinnuleysisbótum til yðar hafi að einhverju leyti byggst á upplýsingum Samgöngustofu um lögskráningu sjómanna.

Í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Ástæða þess að ofangreint er tekið fram er að Samgöngustofa heyrir undir innviðaráðherra, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, og 2. tölulið 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 6/2022, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðu­neyta í Stjórnarráði Íslands, og stjórnvaldsákvarðanir stofnunar­innar eru kæranlegar til ráðherrans, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 119/2012. Vegna þess þáttar kvörtunar yðar er snýr að ákvörðunum Vinnumálastofnunar bendi ég á að samkvæmt 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er unnt að skjóta ágreiningsefnum sem kunna að rísa á grundvelli laganna til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið leitað til innviðaráðuneytisins vegna ákvörðunar Samgöngustofu um að synja yður um breytta lögskráningu eða til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvarðana Vinnumálastofnunar um atvinnuleysisbætur yðar og brestur því lagaskilyrði til að hún verði tekin til frekari meðferðar að svo stöddu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ég bendi yður hins vegar á að ef þér teljið yður enn rangsleitni beitta að fenginni niðurstöðu framangreindra stjórnvalda getið þér leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi.