Kvartað var yfir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins um að synja beiðni um gjafsókn.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að ákveðið hefði verið að endurupptaka málið og og vísa beiðni um gjafsókn til meðferðar að nýju hjá gjafsóknarnefnd. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið en vegna þess almenna eftirlits sem hann hefur með starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda óskaði hann eftir því að vera upplýstur um lyktir málsins.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. nóvember 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 27. október sl. fyrir hönd A yfir ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 31. ágúst sl. um að synja beiðni hans um gjafsókn.
Í tilefni af kvörtuninni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 16. nóvember sl. þar sem þess var óskað að ráðuneytið veitti tilteknar upplýsingar og skýringar. Í svarbréfi ráðuneytisins 24. sama mánaðar kom fram að ráðuneytið hefði ákveðið að endurupptaka málið og vísa beiðni hans um gjafsókn til meðferðar að nýju hjá gjafsóknarnefnd.
Með vísan til framangreinds eru ekki efni til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunar yðar að svo stöddu og læt ég athugun minni á málinu því lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið umbjóðanda yðar enn rangsleitni beittan að fenginni nýrri niðurstöðu ráðuneytisins getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi. Óháð því óska ég þess jafnframt að þér upplýsið mig um lyktir málsins vegna þess almenna eftirlits sem umboðsmaður hefur með starfsemi og málsmeðferð stjórnvalda.