Alþingi og stofnanir þess.

(Mál nr. 11917/2022)

Kvartað var yfir störfum nefndarmanna allsherjar- og menntmálanefndar Alþingis vegna veitingar ríkisborgararéttar með lögum. Af kvörtuninni varð ráðið að þess væri farið á leiti við umboðsmann að hann lýsti afstöðu sinni til hæfis og skipunnefndarmanna.  

Þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til Alþingis og stofnana þess voru ekki skilyrði til að hann fjallaði frekar um kvörtunina.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 17. nóvember 2022.

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 9. nóvember sl. sem beinist að störfum nefndarmanna allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis vegna veitingar ríkisborgararéttar með lögum. Af kvörtuninni verður ráðið að þér farið þess á leit við umboðsmann að hann lýsi afstöðu sinni til hæfis og skipunar nefndarmanna.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, sem og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka stjórnvaldsákvarðanir. Starfssvið umboðsmanns tekur hins vegar ekki til starfa Alþingis og stofnana þess, sbr. a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þar sem ekki verður annað ráðið en að kvörtun yðar lúti að hæfi og skipun nefndarmanna í fastanefnd sem starfar á vegum þingsins fellur efni hennar samkvæmt framangreindu utan starfssviðs umboðsmanns. Brestur því skilyrði til að kvörtun yðar verði tekin til frekari meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu lýk ég athugun minni á kvörtun yðar með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.