Almannatryggingar. Slysatrygging. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 3208/2001)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem hafnað var greiðslu bóta vegna slyss á þeim grundvelli að slysið hefði ekki átt sér stað á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar og skilyrðum bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 því ekki fullnægt.

Umboðsmaður rakti ákvæði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 og benti á að í lagaákvæðinu væri ekki að finna áskilnað um beina leið milli vinnustaðar og heimilis heldur aðeins að um væri að ræða nauðsynlega ferð sem farin væri samdægurs. Það væri því hlutverk stjórnvalda að skýra nánar hvaða skilyrði þyrftu að vera uppfyllt til þess að um bótaskyldu væri að ræða án þess að þrengja þá tryggingavernd sem ákvæðinu væri ætlað að veita.

Umboðsmaður féllst á það með úrskurðarnefndinni að áskilja yrði nokkur tengsl milli ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Hins vegar yrði að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvað teldist eðlileg leið milli heimilis og vinnustaðar og því ekki unnt að fullyrða fyrirfram að frávik frá beinni leið eða þeirri leið sem starfsmaður færi almennt leiddi til þess að ekki gæti verið um að ræða bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993. Áherslan væri á því hvað væri nauðsynlegt fyrir hinn tryggða til að komast á milli þessara staða. Af þeim sökum taldi umboðsmaður að umrædd stjórnvöld þyrftu að gera fullnægjandi reka að því að upplýsa um ástæður þess að sá sem sækir um bætur væri ekki „á beinni leið“ samkvæmt framlögðum gögnum af hans hálfu.

Umboðsmaður taldi eins og atvikum í hinni kærðu úrlausn í máli A var háttað hafi það verið nauðsynlegur liður í rannsókn málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að óska sérstaklega eftir skýringum, og eftir atvikum gögnum, um ástæðu þess að A var staddur við X þegar slysið varð. Leysti það úrskurðarnefndina ekki undan þeirri skyldu þótt lögmanni A hafi verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Umboðsmaður benti á að í þeim tilvikum þegar málsaðili kemur ekki fram með gögn og upplýsingar sem ætlast má til af honum þegar hann hefur átt frumkvæði að stjórnsýslumáli beri stjórnvaldinu á grundvelli rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinnar að tilkynna honum hvaða gögn skorti og leiðbeina honum um það hverjar afleiðingar það hafi ef þau berast ekki.

Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að hún tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá honum, og hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.

I.

Hinn 29. mars 2001 leitaði A til mín og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 7. febrúar 2001, þar sem hafnað var greiðslu bóta vegna slyss sem átti sér stað 26. janúar 1999.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 10. október 2001.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. ágúst 2000, tilkynnti A um slys sem hann hafði orðið fyrir á leið sinni til vinnu 26. janúar 1999. Lýsti A tildrögum og orsökum slyssins á þann veg í tilkynningunni að hann hefði verið á leið til vinnu í bifreið sinni er hún festist vegna ófærðar og slæms veðurs. Sagðist hann þá hafa farið út úr bifreiðinni og hafist handa við að ýta henni af stað en runnið til og í fallinu lent á hægri hendi. Leitaði A samdægurs á bráðamóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur þar sem hann var upphaflega talin vera með scaphoideum brot. Við nánari athugun og eftirmeðferð reyndist svo ekki vera en í skýrslu læknis þess sem A leitaði til í kjölfar slyssins kemur fram að hann hafi átt við þrálát meiðsl í hendinni að stríða eftir slysið.

Með bréfi 25. september 2000 synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókn A um slysabætur þar sem samkvæmt skattskrá yrði ekki séð að um launaða vinnu eða sjálfstæðan atvinnurekstur hefði verið að ræða. Þá var á því byggt að slysið hefði ekki átt sér stað á beinni leið milli heimilis og vinnustaðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga, dags. 18. desember 2000, kærði lögmaður A umrædda synjun Tryggingastofnunar ríkisins til nefndarinnar. Eftir að hafa aflað greinargerðar tryggingastofnunar og gefið lögmanni A kost á að gera athugasemdir við hana kvað nefndin upp úrskurð 7. febrúar 2001. Í honum sagði meðal annars svo:

„Samkvæmt málsgögnum var kærandi á leið frá heimili sínu við [...] til vinnustaðar að [...] eða starfsstaðar að [...] er hann slasaðist við X að morgni 26. janúar 1999. Ekki liggur fyrir á hvorn staðinn hann ætlaði, en það gildir einu þar sem staðirnir eru á sömu slóðum og því sama leið á báða staði frá [...]. Kærandi leitaði vegna meiðsla samdægurs á bráðamóttöku þar sem m.a. var tekin röntgenmynd. Tilkynning til Tryggingastofnunar um slys er dags. 21. ágúst 2000.

[...]

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar segir:

„Maður telst vera við vinnu:

a. Þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b. Í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.“

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.

Kærandi segir að þó litið verði svo á að hann hafi ekki verið á beinni leið milli heimilis og vinnustaðar breyti það engu um niðurstöðu málsins og vísar til úrskurðar tryggingaráðs nr. 153/1996. Málavextir í því máli eru ekki sambærilegir þeim sem hér um ræðir og hefur sá úrskurður því ekki fordæmisgildi við úrlausn þessa máls. Úrskurðarnefndin telur að megintilgangur slysatryggingar sé að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu og að við beitingu lagaákvæðis verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Þetta megininntak slysatryggingar mæli almennt gegn því að beitt sé lögskýringarkostum sem leiða til rýmkunar gildissviðs tryggingarinnar fram yfir atvik er eiga sér stað í vinnutíma eða standa að öðru leyti í nánum tengslum við framkvæmd vinnu. Því telur nefndin að ákvæðið eigi ekki við þegar starfsmaður kýs að halda ekki beina leið til vinnu heldur rýfur för frá heimili með því að dvelja eða sinna erindum annarsstaðar sem ekki teljist eðlilegar leiðir frá vinnustað, sbr. og bréf umboðsmanns Alþingis frá 27. ágúst 1999 í hliðstæðu máli.

Kærandi var staddur við [X] er slysið átti sér stað. Samkvæmt gatnakorti verða [X] ekki taldir vera á beinni leið milli heimilis kæranda að [...] og að vinnustað við [...] eða starfsstað við [...]. Til þess að komast í [X] þurfti kærandi að leggja lykkju á leið sína. Greiðasta og beinasta leið fyrir kæranda var utan þeirra. Ekki hefur verið gefin skýring á veru hans við [X], þ.e.a.s. utan beinustu og greiðustu leiðar og það í þeirri ófærð sem kærandi lýsir í málsgögnum. Þá staðsetningu telur nefndin vera utan þeirrar beinu leiðar sem leitt getur til bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993.

Bótaskyldu er synjað þar sem ekki verður séð skv. fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið á beinni og eðlilegri leið á milli heimilis og vinnustaðar er slys varð og eru skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 því ekki uppfyllt. Þar sem bótaskyldu er hafnað þegar af fyrrnefndri ástæðu telur nefndin ekki tilefni til að taka afstöðu til annarra málsástæðna.“

III.

Ég ritaði úrskurðarnefnd almannatrygginga bréf, dags. 24. apríl 2001, og fór þess á leit, sbr. 7. og 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að úrskurðarnefndin léti mér í té gögn málsins og skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar. Óskaði ég sérstaklega eftir því að nefndin gerði grein fyrir með hvaða hætti hún stóð að athugun á atvikum í máli A, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var í því sambandi meðal annars óskað eftir upplýsingum um athugun nefndarinnar á ástæðu veru hans við X.

Svarbréf nefndarinnar barst mér 22. júní 2001. Í bréfinu sagði meðal annars svo:

„Þess er óskað að nefndin geri grein fyrir því með hvaða hætti hún stóð að athugun á atvikinu, m.a. athugun á ástæðu fyrir veru [A] við [X].

Lögmaður sendi inn kæru fyrir hönd [A]. Kæru fylgdi rökstuðningur ásamt fylgigögnum. Lögmaður segir að þegar [A] hafi verið á leið til vinnu hafi bifreið hans fest í mikilli ófærð sem skall á þennan morgun. Við að ýta bifreiðinni hafi [A] og meiðst á úlnlið. Hann segir ekkert í málinu gefa tilefni til að ætla annað en að slysið hafi átt sér stað á leið frá heimili að vinnustað. Kærandi sjálfur kveðst hafa farið [X] vegna umferðarþunga og ófærðar. Úrskurðarnefndin taldi ekki þörf á frekari skýringu.

Við afgreiðslu málsins studdist úrskurðarnefndin við götukort af Reykjavík. Það var álit nefndarinnar að [A] hefði ekki verið á beinni leið milli heimilis og vinnustaðar þegar hann var staddur við [X]. [X] væru úr leið. Lögmanni var veitt tækifæri til að koma að frekari gögnum og/eða upplýsingum við greinargerð TR, en þar koma fram sömu sjónarmið og í úrskurði. Engin viðbótargögn eða athugasemdir bárust frá lögmanni.“

Með bréfi 22. júní 2001 gaf ég A kost á því á að gera athugasemdir við framangreint bréf úrskurðarnefndar almannatrygginga. Athugasemdir hans bárust mér 13. júlí 2001.

IV.

1.

Í niðurlagi úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli A segir að bótaskyldu sé synjað þar sem ekki verði séð „skv. fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið á beinni og eðlilegri leið á milli heimilis og vinnustaðar er slys varð og eru skilyrði 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 því ekki uppfyllt“. Fyrr í úrskurðinum segir að nefndin telji að staðsetning A þegar slysið varð „vera utan þeirrar beinu leiðar sem leitt getur til bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993“. Þá segir í skýringum nefndarinnar til mín í bréfi, dags. 22. júní sl., að það sé álit nefndarinnar að A hafi ekki verið á beinni leið milli heimilis og vinnustaðar þegar hann var staddur við X. Ég fæ því ekki annað séð en að af hálfu úrskurðarnefndarinnar hafi, með sama hætti og Tryggingastofnun ríkisins gerði í máli A, verið byggt á því að það væri skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 að sá sem fyrir slysi verður sé „á beinni leið milli heimilis eða vinnustaðar“.

Í úrskurðinum er gerð grein fyrir efni b-liðar 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, þar sem kveðið er á um að trygging samkvæmt því ákvæði taki einnig til þess tíma þegar viðkomandi er í „nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis og matstaðar“.

Ákvæði um að slysatrygging vegna vinnu taki einnig til þess tíma er starfsmaður er í ferðum til vinnu og frá hafa verið í lögum allt frá því lög nr. 26/1936, um alþýðutryggingar, voru sett. Ákvæði 2. mgr. 8. gr. þeirra laga var svohljóðandi:

„Tryggingin nær til sendistarfa í þágu tryggingarskylds atvinnurekstrar og þess tíma, er fer til að fara frá og til vinnu.”

Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 26/1936 segir svo um þetta ákvæði:

„[…] öll tvímæli [eru] tekin af um það, að tryggingin skuli ná til sendistarfa í þágu tryggingarskylds atvinnurekstrar og til þess tíma, er fer til að fara frá og til vinnu.” (Alþt. 1935, A-deild, bls. 659.)

Með lögum nr. 104/1943, um breyting á I.-III. kafla laga um alþýðutryggingar, var gildissvið laganna nokkuð nánar afmarkað hvað þetta atriði snerti. Ákvæði 2. mgr. 11. gr. laga nr. 104/1943 var svohljóðandi:

„Tryggingin nær til sendistarfa í þágu tryggingarskylds atvinnurekstrar og þess tíma, er fer til að fara frá og til vinnu, enda sé aðeins um að ræða nauðsynlegar ferðir milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar, sem farnar eru samdægurs.”

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 104/1943 var að finna eftirfarandi athugasemdir um 11. gr. frumvarpsins:

„Svarar efnislega til síðari hluta 8. gr. laganna, en við er þó bætt nokkrum nauðsynlegum ákvæðum, aðallega vegna fjölgunar tryggingarskyldra starfa, sbr. 10. gr. frumvarpsins.” (Alþt. 1943, A-deild, bls. 545.)

Sambærilegt ákvæði var í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 50/1946, um almannatryggingar. Ákvæði almannatryggingalöggjafar um umfang slysatryggingar í ferðum til og frá vinnu hafa ekki tekið efnislegum breytingum frá þessum tíma og hefur orðalag ákvæðisins að þessu leyti verið nær óbreytt frá því í gildistíð 2. mgr. 30. gr. laga nr. 24/1956, sbr. 2. mgr. 29. gr. laga nr. 40/1963 og 2. mgr. 27. gr. laga nr. 67/1971, um almannatryggingar.

Ég tel að úrskurðarnefndin byggi réttilega á því að það hafi verið ætlun löggjafans að sú tryggingavernd sem 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993, um almannatryggingar, mælir fyrir um næði til þeirrar slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnu sinni en eins og nefndin bendir á er af hálfu löggjafans litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans. Ég bendi á að í lagaákvæðinu er ekki að finna áskilnað um beina leið milli vinnustaðar og heimilis heldur segir þar aðeins að um nauðsynlega ferð þurfi að vera að ræða og hún sé farin samdægurs. Það er því ljóst að það kemur í hlut stjórnvalda, og þar með úrskurðarnefndar almannatrygginga, að skýra nánar hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt samkvæmt lagaákvæðinu til þess að um bótaskyldu sé að ræða. Stjórnvöld verða hins vegar í því efni að gæta þess að þrengja ekki þá tryggingavernd sem þessu ákvæði almannatryggingalaga er ætlað að veita samkvæmt beinni orðskýringu þess.

Ég felst á það með úrskurðarnefndinni að við beitingu lagaákvæðisins verði að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar og þar með að rof á ferð frá heimili til vinnustaðar eða öfugt með því að dvelja eða sinna erindum annars staðar kunni að leiða til þess að sú tryggingavernd sem ákvæðið mælir fyrir um falli niður þar sem ekki sé um að ræða þá eðlilegu leið milli heimilis og vinnustaðar sem gera verði kröfu um. Ég tel hins vegar að það hvað telst eðlileg leið milli heimilis og vinnustaðar verði að meta með tilliti til atvika í hverju tilviki. Því sé ekki unnt að fullyrða fyrirfram að frávik frá beinni leið eða þeirri leið sem starfsmaður fer almennt leiði til þess að ekki geti verið um að ræða bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993. Í því efni kunna aðstæður í umhverfinu, t.d. veður, ófærð, umferðarþungi, tafir á umferð vegna umferðaróhapps eða lokun gatna vegna framkvæmda, að leiða til þess að það teljist ekki rof á eðlilegri för milli heimilis og vinnustaðar eða öfugt þótt farin sé önnur leið heldur en telja verður beina leið samkvæmt götukorti. Ég minni hér á að tryggingavernd sú sem b-liður 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 mælir fyrir um tekur til nauðsynlegra ferða milli heimilis og vinnustaðar. Áherslan er því á hvað sé nauðsynlegt fyrir hinn tryggða til að komast á milli þessara staða.

Ég tel að af framangreindu leiði að þegar Tryggingastofnun ríkisins, og eftir atvikum úrskurðarnefnd almannatrygginga, lítur svo á að framlögð gögn af hálfu þess sem sækir um bætur samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 sýni að hann hafi ekki verið „á beinni leið“ milli heimilis og vinnustaðar þurfi þessi stjórnvöld að gera fullnægjandi reka að því að upplýsa um ástæður þess. Þá verða þau að leggja mat á það hvort viðkomandi hafi af þeim sökum verið á eðlilegri leið í skilningi 2. mgr. 22. gr. milli heimilis og vinnustaðar.

2.

Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar segir að kærandi hafi verið staddur við X er slysið átti sér stað. Þá segir að samkvæmt gatnakorti verði X ekki taldir vera á beinni leið milli heimilis kæranda og vinnustaðar og til þess að komast í X hafi kærandi þurft að leggja lykkju á leið sína. Síðan segir svo í úrskurðinum:

„Greiðasta og beinasta leið fyrir kæranda var utan þeirra. Ekki hefur verið gefin skýring á veru hans við [X], þ.e.a.s. utan beinustu og greiðustu leiðar og það í þeirri ófærð sem kærandi lýsir í málsgögnum. Þá staðsetningu telur nefndin vera utan þeirrar beinu leiðar sem leitt getur til bótaskyldu samkvæmt 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993.“

Í bréfi mínu til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. apríl sl., óskaði ég sérstaklega eftir því að nefndin gerði grein fyrir því með hvaða hætti hún stóð að athugun á atvikum í máli A, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var þar meðal annars óskað eftir upplýsingum um athugun nefndarinnar á ástæðu veru hans við X.

Nefndin bendir í svarbréfi sínu á að lögmaður hafi sent inn kæru fyrir hönd A og henni hafi fylgt rökstuðningur ásamt fylgigögnum. Er til þess vitnað að lögmaðurinn hafi þar sagt að ekkert í málinu gefi tilefni til að ætla annað en að slysið hafi átt sér stað á leið frá heimili að vinnustað. Þá segir í bréfi nefndarinnar:

„Kærandi sjálfur kveðst hafa farið [X] vegna umferðarþunga og ófærðar. Úrskurðarnefndin taldi ekki þörf á frekari skýringu“.

Síðar í bréfinu kemur fram að lögmanni A hafi verið veitt tækifæri til að koma að frekari gögnum og/eða upplýsingum við greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins en þar hafi komið fram sömu sjónarmið og í úrskurði. Engin viðbótargögn eða athugasemdir hafi borist frá lögmanninum.

Þegar litið er til gagna málsins kemur í ljós að í tilkynningu til Tryggingastofnunar ríkisins um umrætt slys er um slysstað krossað við reitinn „Á leið til/frá vinnu - hvar“ og síðan er ritað: „Við [X]“. Tryggingastofnun synjaði um bætur með bréfi, dags. 25. september 2000. Er þar vísað til þess að samkvæmt skattskrá sé ekki að sjá að um launaða vinnu eða sjálfstæðan atvinnurekstur sé að ræða. Síðan segir í ákvörðun stofnunarinnar: „Auk þess átti slysið sér ekki stað á beinni leið milli heimilis og vinnustaðar“.

Í kæru lögmanns A til úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. desember 2000, er ekki sérstaklega gerð grein fyrir þeirri leið sem A fór í umrætt sinn heldur ítrekað sagt að hann hafi verið á leið frá heimili sínu til vinnu og bent á þann tíma sem slysið varð eða kl. 7.45 og að A hafi komið á slysadeild kl. 10.00 þann sama dag. Í kærunni er tekið fram að af hálfu kæranda sé á því byggt að þó litið yrði svo á að leið kæranda hafi ekki verið bein leið milli heimilis og vinnustaðar breyti það engu um niðurstöðu málsins. Er í því efni vísað til úrskurðar tryggingaráðs í ákveðnu máli. Ekki er vikið að veðri og færð með öðrum hætti í kærunni nema hvað á einum stað segir:

„Atvik slyssins voru þau að bifreið kæranda festist í mikilli ófærð sem skall á þennan morgun. Varð kærandi að freista þess að ýta bifreið sinni til að komast til vinnu, en rann til við það og meiddist á úlnlið“.

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 27. desember 2000, eftir greinargerð frá tryggingastofnun vegna kærunnar og í svari stofnunarinnar, dags. 11. janúar 2001, segir meðal annars að slysatrygging samkvæmt 22. gr. nái til nauðsynlegra ferða á milli vinnustaðar og heimilis. Slys A í X sé fjarri því að vera á leið frá heimili og til vinnu eða starfsstöðvar og uppfylli því ekki skilyrði laganna. Síðan segir:

„Ekkert er auk þess í gögnum málsins er sýnir fram á að eðlilegt hafi verið að [A] væri við [X]“.

Fram kemur í úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga að nefndin sendi lögmanni A greinargerðina með bréfi, dags. 15. janúar 2001. Í bréfinu er tekið fram að greinargerðin sé send honum til kynningar og sé óskað að koma að athugasemdum eða frekari gögnum þurfi slíkt að hafa borist innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins. Upplýst er að engar athugasemdir eða gögn bárust frá lögmanninum af þessu tilefni.

Ég tel að eins og atvikum og hinni kærðu úrlausn í þessu máli var háttað hafi það verið nauðsynlegur liður í rannsókn málsins af hálfu úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að óska sérstaklega eftir skýringum og þá gögnum, ef tiltæk voru, um ástæðu þess að A var staddur „við [X]“ þegar slysið varð. Ég minni hér á að það eitt að nefndin gaf lögmanni A kost á að gera athugasemdir við greinargerð tryggingastofnunar leysti nefndina ekki undan þessari skyldu. Í þeim tilvikum þegar málsaðili kemur ekki fram með gögn og upplýsingar sem ætlast má til af honum þegar hann hefur átt frumkvæði að stjórnsýslumáli ber stjórnvaldinu á grundvelli rannsóknar- og leiðbeiningarskyldu sinnar að tilkynna honum hvaða gögn skorti og leiðbeina honum um það hverjar afleiðingar það hafi ef þau berast ekki, sjá hér m.a. Páll Hreinsson: Stjórnsýslulögin, skýringarrit, Reykjavík 1994, bls. 108.

Ég tek líka fram að af gögnum málsins verður ekki ráðið hvaða leið A fór í umrætt sinn að öðru leyti en að hann hafi verið „við [X]“ þegar slysið varð. Sama gildir um hvers vegna hann valdi að fara einmitt þá leið sem hann fór en í stjórnsýslukæru A segir það eitt að bifreið hans hafi fest „í mikilli ófærð sem skall á þennan morgun“.

V.

Niðurstaða.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða mín að úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi ekki séð til þess að mál A væri nægjanlega upplýst áður en nefndin kvað upp úrskurð sinn í tilefni af stjórnsýslukæru hans, sbr. 10. gr. og 30. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Vegna þessa annmarka á málsmeðferð nefndarinnar er ekki tilefni til þess að ég taki á þessu stigi að öðru leyti afstöðu til máls A. Eru það því tilmæli mín til úrskurðarnefndar almannatrygginga að hún taki mál A til meðferðar á ný, komi fram ósk um það frá honum, og hagi þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í áliti þessu.

VI.

Í tilefni af áliti mínu leitaði A til úrskurðarnefndar almannatrygginga og óskaði eftir endurupptöku málsins. Féllst úrskurðarnefndin á það og felldi úrskurð í málinu 5. desember 2001. Í niðurlagi úrskurðarins segir meðal annars svo:

„Samkvæmt fyrri lýsingu kæranda í tilkynningu um slys og í greinargerð lögmanns hans var hann staddur við [X] er slysið átti sér stað. Í samræmi við þessa lýsingu lagði nefndin til grundvallar [í] fyrri úrskurði sínum, að kærandi hafi verið að fara um [X] er slysið varð og því ekki á beinni og/eða eðlilegri leið til vinnu. Kærandi hefur nú tilgreint með fyllri og nákvæmari hætti hvar hann var staddur. Lýsing hans „á gatnamótum [Y] og [X]“ þykir ekki í ósamræmi við fyrri lýsingu hans við [X] og verður því lögð til grundvallar málsatvikum. Að þessu virtu telur nefndin nægilega í ljós leitt að kærandi hafi verið á leið til vinnu og fellst á að akstur frá heimili um Vesturberg og á vinnustað sé eðlileg leið í skilningi laganna. Telst lagaskilyrði þar að lútandi því uppfyllt.

Tekur nefndin þá til athugunar hvort önnur skilyrði bótaskyldu séu uppfyllt. […]

ÚRSKURÐARORÐ:

Bótaskylda vegna slyss [A] [...] er viðurkennd.“