Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11742/2022)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu nefndar um eftirlit með lögreglu á kvörtun vegna starfsaðferða lögreglu.

Nefndin greindi umboðsmanni frá því að hún hefði ekki fengið afhent gögn frá lögreglunni þar sem  sakarefni og kvörtunarefni væru það sama og því yrðu gögnin ekki afhent fyrr en að lokinni meðferð málsins. Ekki var því tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu en umboðsmaður ritaði nefndinni þó bréf með ábendingu um að gæta betur að málshraðareglu stjórnsýsluréttar og ítreka gagnbeiðnir til stjórnvalda þegar tilefni sé til.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 14. september 2022.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 20. júní sl. yfir töfum á afgreiðslu kvörtunar yðar til nefndar um eftirlit með lögreglu frá 5. janúar sl. vegna starfsaðferða lögreglu.

Í tilefni af kvörtun yðar var nefnd um eftirlit með lögreglu ritað bréf 1. júlí sl. þar sem óskað var upplýsinga um hvort erindi yðar hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Svarbréf nefndarinnar barst 25. ágúst sl. en þar kemur fram að nefndin hafi óskað eftir gögnum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. janúar sl. en að í svari lögreglustjóra 13. sama mánaðar hafi komið fram að „sakarefnið og kvörtunarefnið væru það sama“ og því yrðu gögn málsins ekki afhent fyrr en embættið hefði lokið meðferð þess. Í ljósi þess að gögn málsins hefðu ekki enn borist nefndinni gæti hún ekki lokið afgreiðslu sinni á erindi yðar. Þá hefur nefndin jafnframt greint frá því að til skoðunar sé að ítreka gagnabeiðni hennar til lögreglustjóra.

Að virtum skýringum nefndar um eftirlit með lögreglu um stöðu málsins tel ég ekki tilefni til að aðhafast frekar að svo stöddu og læt því athugun minni lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að ég hef ákveðið að rita nefndinni bréf þar sem ég kem á framfæri tiltekinni ábendingu vegna athugunar minnar á málinu. Verði frekari tafir á meðferð málsins, þ. á m. á gagnabeiðni nefndarinnar til lögreglustjóra, getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.

  

  


  

Bréf umboðsmanns til nefndar um eftirlit með lögreglu 14. september 2022.

   

Ég vísa til fyrri bréfaskipta vegna kvörtunar A er laut að töfum á afgreiðslu kvörtunar hans til nefndar um eftirlit með lögreglu 5. janúar sl. vegna starfsaðferða lögreglu. Líkt og fram kemur í bréfi mínu til A, sem fylgir hér með í ljósriti, hef ég ákveðið að ljúka athugun minni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þrátt fyrir það hefur athugun mín á þessu máli orðið mér tilefni til að koma eftirfarandi ábendingu á framfæri og þá með það í huga að hún verði framvegis höfð í huga í störfum nefndarinnar.

Í tilefni af kvörtun A var nefndinni ritað bréf 1. júlí sl. þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort erindi hans hefði borist og þá hvað liði meðferð og afgreiðslu þess. Í svari nefndarinnar 25. ágúst sl. kemur fram að hún hafi óskað eftir gögnum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 11. janúar sl. en í svari lögreglustjóra 13. sama mánaðar hafi hann greint frá því að „sakarefnið og kvörtunarefnið væru hið sama“ og því yrðu gögn málsins ekki afhent fyrr en embættið hefði lokið meðferð þess. Þá greindi starfsmaður nefndarinnar frá því í símtali við starfsmann umboðsmanns 1. september sl. að til skoðunar væri að ítreka áðurnefnda gagnabeiðni.

Það vakti athygli mína að í svari nefndarinnar kemur fram að í ljósi þess að gögn málsins hafi ekki enn borist geti hún ekki lokið afgreiðslu þess. Af þessu tilefni er rétt að minna á að samkvæmt skráðum og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar um málshraða ber stjórnvöldum að ljúka afgreiðslu mála svo fljótt sem unnt er. Sé óskað eftir umsögnum eða gögnum í máli skal það gert við fyrsta hentugleika. Verði dráttur á að orðið sé við slíkri beiðni ber stjórnvaldi að ítreka erindi sitt og grípa í framhaldi af því til eðlilegra ráðstafana til þess að knýja hana fram, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis 19. apríl 1993 í máli nr. 613/1992.

Með vísan til þess að ekki verður ráðið af svarbréfi nefndarinnar að gagnabeiðni hennar frá 11. janúar sl. hafi verið ítrekuð frá þeim tíma og að hartnær níu mánuðir voru þá liðnir frá því að kvörtun A barst, tel ég að nefnd um eftirlit með lögreglu hafi borið að gæta betur að málshraðareglu stjórnsýsluréttar. Í ljósi þess kem ég þeirri ábendingu á framfæri að betur verði gætt að þessum atriðum við meðferð hliðstæðra mála hjá nefndinni í framtíðinni.