Kvartað var yfir innleiðingu tveggja þátta auðkenningar fyrir innri vef Háskóla Íslands.
Þar sem ekki varð ráðið að erindið hefði verið borið upp við rektor skólans voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 7. september 2022, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar 12. ágúst sl. er lýtur að innleiðingu tveggja þátta auðkenningar fyrir innri vef Háskóla Íslands, en með henni er tilkynning í farsíma nú nauðsynleg til þess að staðfesta innskráningu á vefinn. Í kvörtuninni kemur fram að athugasemdum vegna þessa hafi verið komið á framfæri við yfirmenn á félagsvísindasviði skólans en þær hafi ekki verið teknar til greina.
Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, er rektor yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan hans. Hann stýrir starfsemi háskólans og ber ábyrgð á og hefur eftirlit með allri starfsemi skólans.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinni í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum, sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Þar sem ekki verður ráðið af kvörtun yðar að afstaða rektors til málsins liggi fyrir brestur lagaskilyrði til þess að kvörtun yðar verði tekin til frekari athugunar að svo stöddu.
Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.