Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 11676/2021)

Kvartað var yfir skorti á svörum frá Kópavogsbæ sem sveitarfélagið hafði boðað í bréfi til umboðsmanns að væru í vændum.

Í kjölfar eftirgrennslanar umboðsmanns svaraði bærinn erindinu og því ekki ástæða til að aðhafast frekar.

 

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, sem hljóðar svo:

Vísað er til kvörtunar yðar 5. maí sl. yfir því að yður hafi ekki borist svar frá Kópavogsbæ við erindum yðar líkt og sveitarfélagið hafi boðað í bréfi til umboðsmanns Alþingis 21. febrúar sl. vegna máls nr. 11390/2021.

Í tilefni af kvörtun yðar var sveitarfélaginu ritað bréf 25. maí sl. þar sem þess var óskað að umboðsmaður yrði upplýstur um hvort yður hefði verið svarað og hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins hefði það ekki verið gert. Svarbréf sveitarfélagsins barst 5. ágúst sl. þar sem upplýst var að byggingarfulltrúi hefði svarað yður með bréfi sem hefði verið sent sama dag.

Þar sem kvörtun yðar lýtur að því að erindum yðar hafi ekki verið svarað og nú liggur fyrir samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu að það hefur verið gert tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Lýk ég því meðferð minni á kvörtun yðar með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.