Kvartað var yfir svörum frá landlæknisembættinu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við erindum.
Í ljósi þess að málið var til meðferðar hjá embætti landlæknis voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um það að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. apríl 2022.
Vísað er til kvörtunar yðar 1. apríl sl. yfir svörum frá landlæknisembættinu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við erindum yðar. Í kvörtuninni og tilheyrandi gögnum kemur fram að þér óskuðuð eftir sjúkraskrárgögnum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna heilbrigðisþjónustu sem veitt var eiginkonu yðar, nú látinni, og að heilsugæslan hafi ráðlagt yður að snúa yður til landlæknis með erindið. Þá kemur og fram að þér fóruð fram á að embætti landlæknis rannsakaði andlát konu yðar m.t.t. mögulegra mistaka læknis við greiningu sjúkdóms og eftirfarandi meðferð og að yður hafi ítrekað verið svarað með því benda á upplýsingar á vefsíðu embættisins um hvernig „formlegri kvörtun“ skuli beint til þess. Þá verður ráðið af kvörtuninni að þér hafið litið svo á að svör heilsugæslunnar við beiðni yðar um umbeðin sjúkraskrárgögn kæmu í veg fyrir að þér gætuð borið fram kvörtun við embætti landlæknis á því formi sem þar væri krafist.
Í viðbótargögnum sem þér senduð umboðsmanni Alþingis 7. apríl sl. eru m.a. afrit tölvubréfa milli yðar og aðstoðarmanns landlæknis 6. apríl sl. undir yfirskriftinni: „Vegna formlegra athugasemda/ kvörtunar“. Þar kemur fram af hálfu aðstoðarmannsins að mál yðar sé nú þegar komið til meðferðar hjá embættinu og að þér munið bráðlega fá frekari upplýsingar „í tengslum við athugun embættisins á málinu, sem þegar er hafin“. Enn fremur er spurningu yðar, um hvort ekki þurfi að útfylla eyðublaðið sem nefnt hefði verið í símtali skömmu áður, svarað með þessum orðum: „Rétt, það er óþarfi að fylla út eyðublaðið.“
Meðal skilyrða þess að umboðsmaður geti tekið mál til meðferðar er að þau stjórnvöld sem eru til þess bær hafi áður fjallað um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Í ljósi síðastgreindra upplýsinga um að meðferð máls yðar hjá embætti landlæknis sé hafin læt ég málinu hér með lokið með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Bent skal á að samkvæmt 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er unnt að kæra málsmeðferð kvörtunar hjá landlækni til heilbrigðisráðherra. Ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni að fengnu áliti landlæknis, og eftir atvikum kæru til ráðherra, getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.
Vegna þess þáttar kvörtunar yðar er snertir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skal bent á að synji umsjónaraðili sjúkraskrár nánum aðstandanda um aðgang eða afrit af sjúkraskrá látins einstaklings skal umsjónaraðili sjúkraskrár leiðbeina um rétt til að bera synjun um aðgang undir embætti landlæknis og að ákvarðanir embættisins um aðgang að sjúkraskrá eru endanlegar á stjórnsýslustigi og verður ekki skotið til heilbrigðisráðherra, sbr. 15. gr. og 15. gr. a. laga nr. 55/2009, um sjúkraskrár. Ef þér teljið svör heilsugæslunnar um aðgang yðar að sjúkraskrá eiginkonu yðar heitinnar ekki fullnægjandi, óháð kvörtun yðar vegna heilbrigðisþjónustu sem henni var veitt, getið þér því jafnframt freistað þess að leita til landlæknis af því tilefni.