A bar fram kvörtun, er varðaði útboð Póst- og símamálastofnunarinnar á flutningi pósts. Í bréfi mínu til A, dags. 11. júní 1992, sagði m.a. svo:
„Samkvæmt 1. og 2. gr. laga nr. 36/1977 um stjórn og starfrækslu póst- og símamála er póst- og símamálastofnunin sjálfstæð ríkisstofnun, en samgönguráðherra fer með yfirstjórn þeirra mála, er undir stofnunina heyra. Umrætt útboð fór fram í nafni póst- og símamálastofnunarinnar. Kvörtun yðar lýtur að tilteknum ákvörðunum stofnunarinnar, eftir að tilboð voru opnuð 4. maí s.l. Það er skoðun mín, að þau atriði, er kvörtun yðar lýtur að, verði borin undir samgönguráðuneytið til úrskurðar. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Það er því niðurstaða mín, að skilyrði bresti til þess að ég geti fjallað frekar um kvörtun yðar.“
Ég benti A á, að hann gæti leitað til mín á ný, teldi hann sig enn órétti beittan að fenginni niðurstöðu samgönguráðuneytisins.