Heilbrigðismál. Skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar.

(Mál nr. 11542/2022)

Kvartað var yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978 og frávísun landlæknis á kvörtun sl. haust.

Sama kvörtun hafði áður borist umboðsmanni sem benti viðkomandi þá á að bera erindið undir heilbrigðisráðuneytið. Þar sem málið var nú til meðferðar hjá því voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um það að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 5. febrúar sl. yfir heilbrigðisþjónustu vegna slyss árið 1978 og frávísun landlæknis á kvörtun yðar frá 3. september sl.

Þér hafið áður kvartað yfir framangreindu til umboðsmanns Alþingis og fékk kvörtun yðar þá málsnúmerið 11363/2021. Því máli lauk með bréf 11. nóvember sl. þar sem yður var leiðbeint um að þér gætuð freistað þess að bera málið undir heilbrigðisráðuneytið, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og að þér gætuð í kjölfarið leitað til mín á ný ef þér telduð yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess.

Af gögnum málsins og samtali yðar við starfsmann umboðsmanns verður ráðið að þér hafið nú leitað til ráðuneytisins en að málið sé enn til meðferðar hjá því. Í samræmi við 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að ég fjalli um kvörtun yðar frekar að svo stöddu. Áréttað er að þér getið, að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins, leitað til mín á ný innan árs ef þér teljið yður enn beittan rangsleitni.

Með vísan til framangreinds læt ég máli yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.