Tafir. Stjórnsýslukæra.

(Mál nr. 11418/2021)

Kvartað var yfir úrskurði atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins vegna kæru á drætti Matvælastofnunar við að afgreiða umsókn um starfsleyfi og yfir málsmeðferðartímanum hjá MAST.

Umboðsmaður spurði ráðuneytið út í lagalegar forsendur þess að það taldi óhjákvæmilegt að vísa kærunni frá og hvernig þær forsendur samrýmdust yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra gagnvart MAST. Í svari ráðuneytisins kom fram að ákveðið hefði verið að endurupptaka kærumálið og kveða upp úrskurð. Lét umboðsmaður því athugun sinni lokið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 9. febrúar 2022, sem hljóðar svo:

   

  

Vísað er til kvörtunar yðar 29. nóvember sl. fyrir hönd A hf.,  annars vegar yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins vegna kæru A hf. á drætti Matvælastofnunar við að afgreiða umsókn fyrir­tækisins um starfsleyfi og hins vegar yfir málsmeðferðartímanum hjá Mat­vælastofnun.

Með bréfi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 17. janúar sl. var þess óskað að gerð yrði grein fyrir lagalegum forsendum þess að ráðuneytið taldi óhjákvæmilegt að vísa kæru A hf. frá og hvernig þær forsendur samrýmdust yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildum ráðherra gagnvart Matvælastofnun. Í svarbréfi ráðuneytisins, nú matvælaráðu­neytisins, 7. febrúar sl., sem fylgir bréfi þessu í ljósriti, kemur fram að ákveðið hafi verið að endurupptaka kærumálið og kveða upp úrskurð í því.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki tilefni til þess að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að svo stöddu og læt athugun minni á málinu lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ef þér teljið umbjóðanda yðar enn beittan rangsleitni að fengnum úrskurði ráðuneytisins getið þér leitað til mín að nýju með kvörtun þar að lútandi.