Kvartað var yfir stjórnsýslu gæðaráðs Sjúkrahússins á Akureyri.
Þar sem erindið hafði ekki verið borið upp við heilbrigðisráðuneytið á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildar ráðherra voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði frekar um kvörtunina.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. janúar 2021, sem hljóðar svo:
Ég vísa til kvörtunar yðar fyrir hönd A, dags. 6. október sl., sem beinist að stjórnsýslu gæðaráðs Sjúkrahússins á Akureyri við meðferð kvörtunar hennar vegna aðgerðar sem hún gekkst undir á sjúkrahúsinu. Í kvörtuninni var upplýst að A hefði leitað til landlæknis með kvörtun sem beindist m.a. að stjórnsýslu gæðaráðsins en sá þáttur málsins hefði ekki verið tekinn til efnislegrar skoðunar, sbr. álit landlæknis frá 3. júlí sl.
Í tilefni að kvörtun yðar var heilbrigðisráðherra ritað bréf, dags. 6. nóvember sl., þar sem óskað var eftir að hann veitti mér tilteknar upplýsingar. Mér hefur nú borist meðfylgjandi bréf frá heilbrigðiráðuneytinu, dags. 11. janúar sl., þar sem fram kemur m.a að umbjóðandi yðar geti beint erindi til heilbrigðisráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildar ráðherra með sjúkrahúsinu.
Í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Byggist þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Með vísan til framangreinds tel ég rétt að þér berið málið undir heilbrigðisráðuneytið áður en þér leitið til mín með kvörtun.
Með hliðsjón af ofangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1995, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu. Ég tek þó fram að kjósi umbjóðandi yðar að leita með erindið til heilbrigðisráðuneytisins getur hún, eða þér fyrir hennar hönd, leitað til mín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins telji hún sig þá enn beitta rangsleitni.
Undirritaður var settur í embætti umboðsmanns Alþingis 1. nóvember sl. á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og hefur hann farið með mál þetta frá þeim tíma.
Kjartan Bjarni Björgvinsson