Samgöngumál.

(Mál nr. 10977/2021)

Kvartað var yfir að Alþingi hefði ákveðið að ekki yrðu gerð jarðgöng um Súðavíkurhlíð og áhyggjum lýst af öryggi vegfarenda.  

Í ljósi ungs aldurs þeirrar sem kvartaði var bréf umboðsmanns um lyktir málsins með aðeins öðru sniði en hefðbundið er. Þar útlistaði hann þó hlutverk sitt eins og stundum áður en með nokkuð öðrum hætti en alla jafna og þar sem eftirlit hans tæki ekki til starfa Alþingis gæti hann ekki tekið kvörtunina til frekari athugunar. Benti hann stúlkunni á að hún gæti komið athugasemdum sínum á framfæri við samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem legði fram tillögu um samgönguáætlun. Einnig mætti senda erindi til bæði þingmanna og þingnefnda.

  

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 24. mars 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Sæl A

 

Þakka þér fyrir að sýna starfi umboðsmanns Alþingis áhuga og senda mér tölvupóst þar sem þú lýsir áhyggjum þínum af samgöngumálum íbúa í Súðavík. Eins og ég skil bréf þitt þá ertu ósátt við að Alþingi hafi ákveðið að ekki verði byggð jarðgöng um Súðavíkurhlíð. Þér finnist þetta óásættanlegt þar sem íbúar í Súðavík þurfi að sækja vinnu, skóla og íþróttastarf á Ísafirði og að vegurinn um Súðavíkurhlíð sé einn af hættulegustu vegum landsins.

Í lögum númer 33/2008, um samgönguáætlun, segir að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sem nú er Sigurður Ingi Jóhannsson, leggi á minnsta kosti þriggja ára fresti fram tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun þar sem mörkuð er stefna og markmið fyrir allar greinar samgangna næstu fimmtán árin. Tillaga ráðherra um samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 var samþykkt á Alþingi 29. júní 2020. Í áætluninni er ekki gert ráð fyrir jarðgöngum um Súðavíkurhlíð.

Þar sem umboðsmaður hefur ekki eftirlit með störfum Alþingis, þar á meðal ákvörðun Alþingis um að samþykkja þingsályktunartillögu um samgönguáætlun 2020-2034 get ég því miður ekki fjallað um kvörtun þína.

Ég tek fram að ég hef fullan skilning á því að þú skulir vera ósátt með stöðu mála og það er auðvitað ekki skemmtilegt að missa af stórum viðburðum í félagslífinu út af samgönguvandræðum. Mér er hins vegar ekki heimilt að fjalla um önnur mál í starfi mínu en umboðsmanni er ætlað samkvæmt lögum.

Eins og áður er fram komið er það samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem leggur fram tillögu um samgönguáætlun á Alþingi þar á meðal um það hvar á landinu skuli leggja jarðgöng. Þú getur því komið athugasemdum þínum á framfæri við ráðherra. Til dæmis má senda tölvupóst á netfangið srn@srn.is eða senda bréf til samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Einnig er hægt að senda erindi til alþingismanna og þingmannanefnda

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu. Ef þú hefur einhverjar spurningar um starfið hjá umboðsmanni eða vilt fá frekari skýringar á þessari niðurstöðu er þér að sjálfsögðu meira en velkomið að hringja í síma 510-6700 milli kl. 9 og 15 á virkum dögum og ræða við lögfræðing.

Undirritaður fór með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis á grundvelli 3. mgr. 14. gr. laga nr. 85/1997.

   

    

Kjartan Bjarni Björgvinsson