Happdrætti.

(Mál nr. 11429/2021)

Kvartað var yfir Happdrætti Háskóla Íslands. Ósamræmi væri í upplýsingagjöf um vinningslíkur í spilakössum þar sem aðrar upplýsingar kæmu fram á vef happdrættisins en veittar hefðu verið á Alþingi.  

Ekki varð ráðið að leitað hefði verið til happdrættisins með umkvörtunarefnið eða eftir atvikum þeirra stjórnvalda sem hefðu eftirlit með starfsemi þess og kæruleið þannig tæmd. Þar með voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 21. desember 2021, sem hljóðar svo:

 

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. desember sl. sem lýtur að Happdrætti Háskóla Íslands. Fram kemur að þér teljið vera ósamræmi í upplýsingagjöf um vinningslíkur í spilakössum á vegum happdrættisins með því að á vef þess komi fram aðrar upplýsingar en veittar hafi verið Alþingi.

Um Happdrætti Háskóla Íslands gilda samnefnd lög nr. 13/1973. Í lögunum segir í 1. gr. að ráðherra hafi heimild til að veita Háskóla Íslands leyfi til að starfrækja happdrætti. Þá eru í gildi lög nr. 38/2005, um happ­drætti. Eftirlit með framkvæmd laganna er í höndum sýslumanns og að hluta hjá dómsmálaráðuneytinu, sbr. 10. gr. laga nr. 38/2005.

Ástæða þess að ég nefni þetta er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leið­rétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Umboðsmaður Alþingis fjallar því að jafnaði ekki um mál liggi ekki fyrir afstaða stjórnvalda til þess.

Ekki verður af kvörtun yðar ráðið að þér hafið sérstaklega leitað til Happdrættis Háskóla Íslands með um­kvörtunarefnið eða eftir atvikum þeirra stjórnvalda sem hafa eftirlit með starfsemi þess. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég því ekki rétt að fjalla frekar um kvörtun yðar að svo stöddu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég athugun minni í tilefni af kvörtun yðar.