Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11380/2021)

Kvartað var yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að endurgreiða stöðugjald án vaxta og verðtryggingar.

Þar sem einungis vika var liðin frá því erindið var sent bílastæðasjóði taldi umboðsmaður ekki slíkan drátt hafa orðið á afgreiðslu þess að ástæða væri til að bregðast við.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 10. nóvember 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar, dags. 4. nóvember sl., yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur um að endurgreiða yður stöðubrotsgjald, í framhaldi af áliti mínu 23. september sl. í máli nr. 10996/2021, án vaxta og verðtryggingar. Samkvæmt kvörtuninni senduð þér bílastæðasjóði erindi vegna málsins fyrir viku síðan en engin svör hafi borist.

Af framangreindu má því ráða að málið sé nú til meðferðar hjá bílastæðasjóði, en af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál fyrr en þau hafa verið leidd til lykta af stjórnvöldum. Þess skal einnig getið að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Af hálfu umboðsmanns hefur almennt verið litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun vegna þess að dráttur hafi orðið á því að stjórnvald svaraði erindi frá honum leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til umboðsmanns með kvörtun.

Í ljósi þess að þér hafið nýlega beint erindi til bílastæðasjóðs og erindið því til meðferðar á þeim vettvangi lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar að svo stöddu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Í samræmi við framangreint getið þér hins vegar leitað til mín á nýjan leik ef þér teljið óhóflegan drátt verða á svörum bílastæðasjóðs og þá að undangengnum skriflegum ítrekunum af yðar hálfu á erindinu.