A kvartaði yfir úrskurði félagsmálaráðuneytisins vegna ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar um að synja honum um lækkun álagðs fasteignaskatts sbr. 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Taldi A að bæjarstjórninni hefði verið óheimilt að líta til fjármagnstekna hans, þ.e. arðs af hlutabréfum og vaxtatekna af bankainnstæðum, við afgreiðslu á erindinu.
Í bréfi umboðsmanns til A, dags. 14. júní 2000, rakti umboðsmaður 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 um lækkun eða niðurfellingu fasteignarskatts tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega sem og eldri ákvæði sama efnis ásamt lögskýringargögnum. Þá rakti hann 3. og 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lög nr. 97/1996, ásamt lögskýringargögnum, en með breytingunni var tekin upp samræmd skattlagning fjármagnstekna. Í 4. mgr. kemur fram að fjármagnstekjurnar skulu ekki taldar til tekjuskattsstofns til viðmiðunar við útreikning bóta eða annarra greiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum húsaleigubætur eða öðrum lögum. Með hliðsjón af framangreindu taldi umboðsmaður að samkvæmt núgildandi ákvæði um lækkun eða niðurfellingu fasteignaskatts bæri sveitarfélagi að miða við tekjur viðkomandi og að enginn fyrirvari væri gerður um eðli eða tegund tekna í því sambandi. Taldi hann það hvorki samrýmast orðalagi ákvæðisins né markmiði þess að óheimilt væri að líta til fjármagnstekna viðkomandi svo sem vaxtatekna af bankainnstæðum og arðs af hlutabréfum. Þá tók umboðsmaður fram að ákvæði 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981 væri samkvæmt orðalagi sínu bundið við tekjuskattsstofn og ætti því einungis við þegar bætur eða greiðslur tækju mið af tekjuskattsstofni eða reglum laga nr. 75/1981 um tekjur að öðru leyti. Benti hann á að ívilnun í fasteignaskatti samkvæmt heimild 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 væri reist á tekjuviðmiðun sem út af fyrir sig væri óháð reglum um tekjur og tekjuskattsstofn í lögum nr. 75/1981. Tók hann fram að nokkur vafi léki á því að unnt væri að líta á slíka ívilnun í fasteignaskatti samkvæmt umræddu ákvæði sem „bætur eða aðrar greiðslur“ í skilningi 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981. Þá hefði eftir því sem upplýst væri um framkvæmd Garðabæjar á umræddri ívilnunarheimild ekki verið byggt á tekjuskattsstofni lífeyrisþega við mat á því hvort viðkomandi gæti talist tekjulítill í skilningi hennar. Hefði þannig ekki verið tekið tillit til tilgreindra frádráttarliða sem koma til frádráttar tekjuskattsstofni samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981. Þá benti umboðsmaður á að vextir teldust til skattskyldra tekna og bæri einstaklingum að telja fram vaxtatekjur sínar á skattframtali, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981. Hafði upptaka fjármagnstekjuskatts á árinu 1996 út af fyrir sig ekki í för með sér neinar breytingar í þeim efnum. Með vísan til framangreinds taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að bæjarstjórn Garðabæjar hefði verið óheimilt við afgreiðslu á umsókn A um lækkun fasteignaskatts að líta til fjármagnstekna hans. Yrði ákvæði 4. mgr. 67. gr. laga nr. 75/1981 ekki talið eiga við þegar um væri að ræða veitingu ívilnunar í fasteignaskatti á grundvelli ákvæðis tekjustofnalaga.
Í tilefni að því A kvaðst ekki vita til þess að önnur sveitarfélög höguðu viðmiðunarreglum sínum um lækkun fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega á þann hátt sem tíðkað væri af bæjarstjórn Garðabæjar benti umboðsmaður að samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 ráði sveitarfélög sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Skulu tekjustofnar sveitarfélaga ákveðnir með lögum svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir. Með 4. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995 er sveitarfélögum veitt heimild til að lækka eða fella niður fasteignaskatt tekjulítilla elli- og örorkulífeyrisþega. Benti umboðsmaður á að af reglunni um sjálfsstjórn sveitarfélaga leiddi að það væri undir einstökum sveitarfélögum komið hvort þau nýttu umrædda heimild og þá hvernig hún væri útfærð með þeim fyrirvara að hún væri innan ramma lagaákvæðisins og byggð á málefnalegum og lögmætum sjónarmiðum. Mismunandi framkvæmd einstakra sveitarfélaga fæli þannig ekki í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga heldur væri það samræmd beiting hennar gagnvart íbúum viðkomandi sveitarfélags sem máli skipti.
Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að ekki væri tilefni til athugasemda við niðurstöðu bæjarstjórnar Garðabæjar og félagsmálaráðuneytisins í máli A.