Skipulags- og byggingarmál. Deiliskipulag.

(Mál nr. 11272/2021)

Kvartað var yfir vinnubrögðum Fjallabyggðar og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í tengslum við breytingu á deiliskipulagi. 

Samkvæmt skipulagslögum er gert ráð fyrir að sveitarstjórn geti breytt samþykktu deiliskipulagi ef það telur þörf á. Má því hvort slík þörf sé fyrir hendi verður að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttarins. Að mati umboðsmanns voru ekki vísbendingar í  gögnum málsins um að sú hefði ekki verið raunin í þessu tilfelli. Þá yrði ekki séð að málsmeðferð hefði verið í andstöðu við almennar reglur stjórnsýsluréttarins og reglur í skipulagslögum. Hvorki væri ástæða til að gera athugasemd við úrskurð nefndarinnar né ákvörðun hennar um að synja endurupptökubeiðni.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 30. september 2021, sem hljóðar svo:

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar fyrir hönd A og B sem beinist að Fjallabyggð og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af ákvæðum laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, leiðir að ef unnt er að kæra ákvörðun stjórnvalds til æðra stjórnvalds beinist athugun umboðsmanns að jafnaði að úrskurði þess og þá hvort það hafi leyst réttilega úr málinu, þ.m.t. í ljósi þeirra athugasemda sem hafa verið gerðar við meðferð málsins hjá lægra settu stjórnvaldi.

Í samræmi við framangreint lýtur athugun mín að úrskurði úr­skurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 28. maí sl. í máli nr. 12/2021. Samkvæmt úrskurðinum hafnaði nefndin kröfu A og B um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjallabyggðar 15. janúar sl. um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi [tiltekinnar frístundabyggðar]. Jafnframt beinist athugun mín að ákvörðun nefndarinnar 2. júlí sl. um að synja þeirri beiðni að taka málið aftur til meðferðar.

Samkvæmt kvörtuninni sem og þeim gögnum sem fylgdu henni eru gerðar ýmsar athugasemdir við málsmeðferð og ákvarðanir Fjallabyggðar og úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í tengslum við þá deilu sem er uppi um breytingu á téðu deiliskipulagi. Meðal þess sem athuga­semdirnar lúta nánar að er að Fjallabyggð hafi verið óheimilt að breyta deiliskipulaginu á grundvelli þeirra ástæðna sem raun ber vitni. Af þeim sökum skal bent á að samkvæmt ákvæðum VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 er ljóslega gert ráð fyrir að sveitarstjórn geti breytt samþykktu deiliskipulagi ef það telur þörf á því. Líkt og á við um aðrar athafnir stjórnvalda verður mat á því hvort slík þörf sé fyrir hendi að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, í samræmi við rétt­mætis­reglu stjórnsýsluréttarins. Í gögnum málsins eru ekki vísbendingar um að sú hafi ekki verið raunin í þessu máli, enda var vísað til þess í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni að hún væri gerð samkvæmt beiðni lóðarhafa til að bæta byggingarskilyrði á lóðinni.

Kvörtunin byggist einnig á því að málsmeðferð Fjallabyggðar hafi brotið í bága við tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skipulagsáætlanir eru almenn stjórnvaldsfyrirmæli. Í samræmi við 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga gilda þau því að jafnaði ekki um máls­með­ferð sveitarfélaga þegar til stendur að gera breytingar á skipulagi, þar á meðal deiliskipulagi. Eftir sem áður giltu um málsmeðferðina almennar reglur stjórnsýsluréttarins ásamt þeim reglum sem koma fram í skipulagslögum, en ég fæ ekki séð að málsmeðferð sveitarfélagsins hafi verið í andstöðu við þær reglur.

Eftir að hafa kynnt mér gögn málsins tel ég því hvorki ástæðu til að gera athugasemdir við úrskurð nefndarinnar í máli nr. [...] né ákvörðun hennar um að synja endurupptökubeiðninni. Í tilefni af athugasemdum við síðarnefndu ákvörðunina bendi ég á að starfsmenn og nefndar­menn í stjórnsýslunni eru að jafnaði ekki vanhæfir til að taka afstöðu til beiðni um endurupptöku þótt þeir hafi áður tekið ákvörðun í málinu. Aðrar athugasemdir samkvæmt kvörtuninni gefa ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar af minni hálfu.

Í ljósi framangreinds tel ég ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til nánari athugunar og lýk því athugun minni á henni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.