Kvartað var yfir töfum á tollafgreiðslu þriggja rafhlaupahjóla.
Í ljós kom að Skatturinn hafði þegar tekið ákvörðun í málinu. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að aðhafast frekar
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 2. september 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar f.h. A ehf., dags. 18. ágúst sl., þar sem þér kvartið yfir töfum á tollafgreiðslu þriggja rafhlaupahjóla sem flutt voru til Íslands.
Í tilefni af kvörtun yðar var Skattinum ritað bréf, dags. 19. ágúst sl., þar sem þess var óskað að ég yrði upplýstur um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins.
Mér bárust svör frá Skattinum með bréfi, dags. 1. september sl. Þar kemur fram að með bréfi, dags. 5. júlí sl., hafi fyrirtækinu verið tilkynnt með ábyrgðarpósti að fyrirhugað væri að stöðva tollafgreiðslu sendingarinnar og að veittur hafi verið sjö daga frestur til þess að bæta úr nánar tilteknum annmörkum með því að leggja fram viðeigandi skjöl. Engin gögn hafi borist og því hafi verið tekin ákvörðun um stöðvun tollafgreiðslu, dags. 19. júlí sl., og hún verið send með ábyrgðarpósti á lögheimili fyrirtækisins. Ákvörðun hafi hins vegar verið endursend til tollyfirvalda þar sem bréfsins hafði ekki verið vitjað. Í kjölfarið hafi yður sem fyrirsvarsmanni fyrirtækisins verið sent afrit ákvörðunarinnar með tölvupósti, dags. 26. ágúst sl., en staðfesting fyrir móttöku póstsins hafi ekki borist þrátt fyrir óskir þess efnis.
Þar sem kvörtun yðar laut að töfum á tollafgreiðslu rafhlaupahjólanna og í ljósi þess að ákvörðun hefur nú verið tekin í málinu tel ég ekki ástæðu til þess að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun yðar. Þá bendi ég yður á að hafi ákvörðun tollyfirvalda af einhverjum sökum ekki borist yður er yður fært að leita til þeirra og óska eftir afriti af henni.
Ég tek einnig fram að ef þér teljið ákvörðun í máli yðar ekki samrýmast lögum er yður heimilt að kæra þá ákvörðun til fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 130. gr. tollalaga nr. 88/2005. Ef þér freistið þess að bera ákvörðun tollyfirvalda undir ráðuneytið og teljið þér yður enn rangsleitni beittan, að fenginni niðurstöðu þess, getið þér leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi.
Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.