Skattar og gjöld.

(Mál nr. 11240/2021)

Kvartað var yfir Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu vegna töku þjónustugjalda við uppflettingu í ökutækjaskrá.  

Ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Þar sem lögmæti gjaldsins hafði ekki verið borið undir ráðherra, hvorki í formi kæru vegna innheimtu þess í ákveðnu tilviki eða með almennum athugasemdum við grundvöll gjaldtökunnar, voru ekki uppfyllt skilyrði til þess að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 13. ágúst 2021, sem hljóðar svo:

   

    

Vísað er til kvörtunar sem þér hafið komið á framfæri f.h. A hf. sem beinist að Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og lýtur að töku þjónustugjalda vegna uppflettinga í ökutækjaskrá. Af kvörtuninni verður ráðið að gerðar séu athugasemdir við lögmæti gjaldtökunnar.

Eftir því sem fram kemur í gögnum sem borist hafa vegna kvörtunarinnar verður ráðið að samskipti yðar, og annarra starfsmanna félagsins, við Samgöngustofu og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið vegna þjónustugjaldanna nái aftur til ársins 2019. Hefur þar m.a. komið fram sú afstaða Samgöngustofu, sbr. tölvupóstur fjármálastjóra stofnunarinnar til yðar, dags. 22. júlí sl., að innheimta gjaldanna sé í samræmi við lög.

Þjónustugjöld vegna uppflettinga í ökutækjaskrá eru innheimt á grundvelli III. kafla laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála. Um töku gjaldsins hefur verið sett gjaldskrá sem birt var með auglýsingu nr. 220/2020 í B-deild Stjórnartíðinda 2. mars 2020, sbr. einnig 3. mgr. 13. gr. laga nr. 119/2012. Almennt er litið svo á að þegar opinber aðili krefur borgara eða lögaðila um greiðslu þjónustugjalds sé það byggt á því að tekin hafi verið ákvörðun um að viðkomandi beri skylda til þess að greiða umrætt gjald á tilteknum lagagrundvelli, sjá nánar skilgreiningu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að baki ákvörðun hins opinbera aðila um þá fjárhæð sem hann krefur viðkomandi um geta legið ákvæði laga, reglna og/eða mat stjórnvaldsins á því hvaða kostnaðarliðir falli undir gjaldtökuheimildina. Geri sá sem krafinn er um gjaldið athugasemdir við töku þess, s.s. að fjárhæð þess sé hærri en lög og reglur standa til, er hann í raun að setja fram athugasemd um að hann hafi með ákvörðun hins opinbera aðila í máli hans verið krafinn um hærra gjald en lög heimila. Þá getur reynt á að hinn opinberi aðili, og eftir atvikum þar til bært kærustjórnvald innan stjórnsýslunnar, leysi úr slíkum ágreiningi í tilviki þessa einstaklings eða lögaðila á grundvelli gildandi lagaheimilda og eftir atvikum almennra stjórnvaldsfyrirmæla sem það eða t.d. ráðherra hefur sett og/eða öðrum þeim útreikningi sem byggt hefur verið á við ákvörðun um fjárhæð gjaldsins.

Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Af því leiðir m.a. að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar á grundvelli kvörtunar fyrr en það hefur verið endanlega til lykta leitt í stjórnsýslunni. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 119/2012, um Samgöngustofu, sæta ákvarðanir Samgöngustofu kæru til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Í tengslum við þetta tek ég einnig fram að í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 119/2012 er mælt fyrir um að gjaldskrá samkvæmt 13. gr. skuli staðfest af ráðherra. Í þessu hlutverki ráðherra felst meðal annars að hann hefur eftirlit með lögmæti gjaldskrárinnar þegar hún er sett. Þá leiðir af stöðu og hlutverki ráðherra að hann fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir gagnvart Samgöngustofu, sbr. 1. gr. laga nr. 119/2012 og IV. kafla laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Í samræmi við þau sjónarmið sem 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 byggist á, sbr. ofangreint, hefur verið litið svo á að mál geti verið þannig vaxin að rétt sé að stjórnvald sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með að taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að það beiti heimildum sínum áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar. Að þessu gættu, og þar sem lögmæti gjaldsins sem um ræðir hefur ekki verið borið undir ráðherra, hvorki í formi kæru vegna innheimtu gjaldsins í ákveðnu tilviki eða með almennum athugasemdum við grundvöll gjaldtökunnar, eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að ég taki kvörtunina til meðferðar að svo stöddu.

Með hliðsjón af ofangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar. Fari svo að þér, eða annar sem er til þess bær, berið lögmæti þjónustugjaldsins undir ráðuneytið f.h. félagsins og teljið það enn beitt rangsleitni að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins er unnt að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.