Fullnustugerðir og skuldaskil.

(Mál nr. 11132/2021)

    

Kvartað var yfir banka og uppgjöri hans á íbúðaláni.

Þar sem starfsemi bankans fellur utan starfssviðs umboðsmanns voru ekki lagaskilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina. Þá væri ekki heldur gert ráð fyrir að umboðsmaður veitti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svaraði almennum lögspurningum.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 27. maí 2021, sem hljóðar svo:

   

Vísað er til kvörtunar yðar frá 25. maí sl. sem beinist að [tilteknum banka] og lýtur að uppgjöri bankans á íbúðaláni sem þér fenguð árið 2004. Af kvörtuninni verður ráðið að þér teljið að ekki hafi verið staðið rétt að málum gagnvart yðar hvað varðar uppgjör bankans á láninu í kjölfar nauðungarsölu á fasteigninni [...] og að verðmat bankans á fasteigninni hafi ekki gefið rétta mynd á verðmæti umræddrar fasteignar á þeim tíma sem það fór fram.

Af þessu tilefni tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa, í umboði Alþingis, eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga kemur fram að undir starfssvið umboðsmanns falli ríki og sveitarfélög en að það nái einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur aðila sem heyrir undir starfssvið umboðsmanns samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. þeirra hafa beitt sig rangsleitni borið fram kvörtun við umboðsmann. Kvörtun verður þannig að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalda eða annarra aðila sem falla undir starfssvið umboðsmanns sem beinast sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi.

Ástæða þess að ég bendi yður á þetta er að [bankinn] er hlutafélag og starfar á einkaréttarlegum grundvelli. Starfsemi [bankans] fellur því utan starfssviðs mín enda felur hún ekki í sér beitingu opinbers valds sem þessum aðila hefur verið fengið með lögum. Af framangreindum ákvæðum laga nr. 85/1997 leiðir jafnframt að ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður veiti almennar álitsgerðir samkvæmt beiðni eða svari almennum lögspurningum. Bresta því skilyrði til þess að ég geti tekið erindi yðar til athugunar.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1 mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, lýk ég hér með athugun minni á málinu.