Máli lokið með áliti, dags. 30. desember 1988.
Samkvæmt l. mgr. l6. gr. reglugerðar nr. 293/1985, um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík, var leigubifreiðastjórum gert að leggja inn atvinnuleyfi sín fyrir l. júlí næsta ár eftir að þeir urðu 75 ára. Gildistöku þessa ákvæðis var þó frestað til l. júlí 1988. Þrír leigubifreiðastjórar, sem gert var að leggja inn atvinnuleyfi síu í samræmi við þessa reglu, töldu ákvæðið andstætt lögum. Umboðsmaður taldi að umrætt reglugerðarákvæði hefði ekki nægilega lagastoð og tók fram að undirritun undir umsókn, þar sem umsækjandi skuldbatt sig til að hlíta ákvæðum reglugerðar um leigubifreiðaakstur, eins og hún yrði á hverjum tíma, viki ekki burt grundvallarreglum um nauðsyn lagaheimildar og lögbundna stjórnsýslu.
Ég tók til meðferðar þrjú mál af ofangreindu tilefni. Álit mín í þessum þremur málum eru að mestu samhljóða. Fer fyrsta álitið, dags. 13. október 1988, hér á eftir, lítillega stytt, en þar á eftir verður gerð grein fyrir málsatvikum og niðurstöðum í hinum tveimur málunum, að því marki sem þær víkja frá fyrsta álitinu.
A lagði fram kvörtun 12. október 1988 af sama tilefni og fjallað er um í málum nr. 22/1988 og 20/1988 hér að framan. A er fæddur ... og sótti 10. apríl 1956 um leyfi til reksturs leigubifreiðar til mannflutninga samkvæmt reglugerð nr. 13/1956, um takmörkun leigubifreiða í Reykjavík og ráðstöfun atvinnuleyfa, en þá hafði A afgreiðslu fyrir bifreið sína hjá bifreiðastöðinni Hreyfli s.f, í Reykjavík. Í umsókninni er tekið fram, að umsækjandi hafi
akstur bifreiðar sinnar að aðalstarfi. Að fengnu samþykki hlutaðeigandi aðila var A úthlutað atvinnuleyfi á árinu 1956. A stundaði akstur leigubifreiðar allt þar til honum var með bréfi umsjónarnefndar leigubifreiða gert skylt að leggja inn atvinnuleyfi sitt hinn 1. júlí 1988.
Ég óskaði hinn 16. nóvember 1988 eftir því að samgönguráðuneytið skýrði viðhorf sitt til kvörtunar A. Svar ráðuneytisins barst með bréfi, dags. 23. nóvember 1988, og hefur efni þess verið lýst í máli nr. 20/1988 hér að framan.
Ég lauk máli þessu með áliti hinn 30. desember 1988 og var niðurstaða þess samhljóða áliti í máli nr. 22/1988 með þeirri viðbót er greinir í umfjöllun um mál nr. 20/1988, en gerð hefur verið grein fyrir því hér að framan.
Hinn 6. desember 1990 var í bæjarþingi Reykjavíkur kveðinn upp dómur í máli, er A hafði höfðað gegn umsjónarnefnd leigubifreiða, samgönguráðherra og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Í málinu krafðist A þess, að felld yrði úr gildi sú ákvörðun umsjónarnefndarinnar að svipta hann leyfi til aksturs leigubifreiða til mannflutninga og að sér yrðu greiddar skaða- og miskabætur. Í forsendum og niðurstöðum héraðsdómsins kom eftirfarandi m.a. fram:
„Ljóst er að samkvæmt 69. gr. stjórnarskrárinnar verður að koma til heimild í lögum til þess að binda gildi atvinnuleyfa við aldurshámark eða ótvíræð heimild til þess að kveða á um það í reglugerð að slíkum takmörkunum megi beita. Í því tilviki sem hér er um að ræða er hvorugu til að dreifa og verður því fallist á það með stefnanda [A] að hann hafi verið knúinn til þess að hætta rekstri leigubifreiðar án þess að til þeirrar valdbeitingar hafi verið gild heimild að lögum.
Þótt rök kunni að hníga í þá átt að réttmætt sé og nauðsynlegt að binda atvinnuleyfi við ákveðinn aldur leyfishafa, þá þykja þau samt sem áður ekki hagga því að hér skortir lagagrundvöll.“
Voru A dæmdar skaðabætur í samræmi við það tjón, sem hann var talinn hafði orðið fyrir, en krafa hans um miskabætur var ekki tekin til greina. Í dómnum er tekið fram að samkvæmt 9. gr. laga nr. 77/1989 um leigubifreiðar „...hefði atvinnuleyfi stefnanda fallið úr gildi 1. júlí 1989“ og samkvæmt því væri ekki tækt að taka til greina kröfu A um „... að fella nú úr gildi þá ákvörðun umsjónarnefndarinnar að svipta stefnanda leyfi til aksturs leigubifreiða, enda myndi atvinnuleyfi stefnanda hafa fallið úr gildi 1. júlí 1989, ef í gildi hefði verið“.
Samkvæmt upplýsingum, frá skrifstofu ríkislögmanns var máli þessu ekki áfrýjað til Hæstaréttar.