A, sem sagt hafði verið upp starfi hjúkrunarforstjóra við X-spítala samkvæmt ákvörðun stjórnarnefndar ríkisspítala 22. júní 1989, bar fram kvörtun af því tilefni 13. ágúst 1989.
Í bréfi til A, dags. 23. ágúst 1989, sagði:
„Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis er ekki unnt, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 59/1983 um heilbrigðisþjónustu segir að sjúkrahús þau, sem ríkið á eða starfrækir (ríkisspítalar), skuli vera undir yfirstjórn heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, en stjórn þeirra allra er að öðru leyti falin stjórnarnefnd.
Ég tel með hliðsjón af 1. mgr. 30. gr. laga nr. 59/1983, að þér getið skotið ákvörðun stjórnarnefndar ríkisspítala um uppsögn yðar úr starfi til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og óskað eftir úrskurði hans sem æðra stjórnvalds m.a. um þau atriði, er kvörtun yðar til mín beinist að. Niðurstaða mín er því sú, að ekki séu að svo stöddu uppfyllt skilyrði laga til þess að ég fjalli um kvörtun yðar.
Ef þér teljið úrskurð ráðherra ekki viðunandi, getið þér á ný borið fram kvörtun til umboðsmanns Alþingis.“