I.
A leitaði til mín og kvartaði yfir því, að hann fengi greiddan lífeyri úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem miðaður væri við laun leiðbeinenda en ekki kennara.
Hinn 20. desember 1994 ritaði ég A bréf og sagði þar meðal annars svo:
"Kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands taldist 90 stig, sbr. bókun IV. í kjarasamningi Samband íslenskra barnakennara og fjármálaráðherra, sem gilti, er þér létuð af störfum. Voru byrjunarlaun slíkra kennara því samkvæmt 19. lfl., sbr. 2. mgr. 1. gr. fyrrnefnds kjarasamnings.
Menntun yðar var talin 60 stig. Þegar kennslustörf yðar höfðu verið metin til stiga, voru þau komin í 20. lfl. um þær mundir, er þér létuð af störfum. Þér tókuð þá með öðrum orðum laun samkvæmt launaflokki, sem var einum flokki ofar en byrjunarlaun menntaðs kennara frá Kennaraháskóla Íslands.
Í kjölfar setningar laga nr. 48/1986, um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, voru gerðir kjarasamningar, sem gerðu greinarmun á kennurum og leiðbeinendum, eftir því sem næst verður komist. Þegar farið var að reikna út lífeyri kennara annars vegar og leiðbeinenda hins vegar, var miðað við hinn nýja kjarasamning.
Þegar þér hófuð töku lífeyris, tók Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins mið af launaflokki 137,5, þrátt fyrir að byrjunarlaun kennara frá Kennaraháskóla Íslands væru í launaflokki 141. Af kvörtun yðar verður ráðið, að þér teljið lög og samninga hafa breytt lífeyrisréttindum yðar með afturvirkum hætti, en umrædd lífeyrisréttindi höfðuð þér áunnið yður að fullu fyrir gildistöku nefndra laga og kjarasamninga.
Kjarni þessa máls virðist vera túlkun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. 3. gr. laga nr. 71/1990, en ákvæðið hljóðar svo:
"Upphæð ellilífeyris er hundraðshluti af þeim föstu launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum sem á hverjum tíma fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast."
Spurningin er þá, hvort heimilt sé að túlka umrætt lagaákvæði með þeim hætti, sem gert er af hálfu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Hér kemur m.a. til athugunar eðli þeirra réttinda, sem sjóðsfélagar eiga hjá lífeyrissjóðum, þ. á m. hvort um eignarréttindi sé að ræða, sem vernduð séu af 67. gr. stjórnarskrárinnar.
II.
Eins og nánar kemur fram í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1991, bls. 56, hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins ekki talið, að valdsvið umboðsmanns Alþingis taki til lífeyrissjóðsins. Ég hef aftur á móti ekki talið vafa á að svo sé. Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefur tekið þá ákvörðun að láta mér í té gögn þeirra mála, er ég hef fjallað um, en hefur neitað að veita mér skýringar sínar, sbr. 9. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.
Mál yðar snertir úrlausnarefni, er varðar marga sjóðsfélaga Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og dómstólar hafa ekki tekið skýra afstöðu til. Niðurstaða í máli yðar getur því haft fordæmisgildi.
III.
Varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það skv. 3. tölul. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Umboðsmanni er jafnframt heimilt að leggja til við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að það veiti gjafsókn í því skyni.
Þar sem mál þetta uppfyllir framangreint skilyrði og varðar réttarágreining, sem dómstólar hafa ekki tekið skýra afstöðu til, hef ég ákveðið að ljúka máli þessu með vísan til 3. tölul. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis og að mæla með því við dóms- og kirkjumálaráðherra, að yður verði veitt gjafsókn til þess að bera mál þetta undir dómstóla, ef þér ákveðið að höfða slíkt mál og sækið um gjafsókn í því skyni."