Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði til þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Umboðsmaður Alþingis mælis með gjafsókn. Ákvörðun á skattstofni til tryggingagjalds.

(Mál nr. 1166/1994)

Máli lokið með bréfi, dags. 30. september 1994.

I.

A leitaði til mín og kvartaði yfir þeirri ákvörðun ríkisskattstjóra að synja að endurupptaka mál hans. Forsaga málsins var sú, að deilt hafði verið um ákvörðun á skattstofni til tryggingagjalds samkvæmt lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, vegna reiknaðs endurgjalds manna, sem vinna við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi. Af hálfu skattyfirvalda hafði gjaldstofn verið miðaður við reiknuð laun sjálfstætt starfandi einstaklinga við reiknað endurgjald í staðgreiðslu. Í úrskurði yfirskattanefndar í máli nr. 928/1993 frá 12. október 1993 var því aftur á móti slegið föstu, að stofn til tryggingagjalds vegna álagningar gjalda árið 1992 skyldi vera þau laun, sem menn reiknuðu sér til skatts samkvæmt lögum um tekju- og eignarskatt.

Þar sem gjaldstofn við álagningu tryggingagjalds gjaldaárið 1992 hafði verið miðaður við reiknuð laun hjá A og hann taldi mál sitt sambærilegt því máli, er yfirskattanefnd hafði fjallað um, óskaði A eftir endurupptöku málsins hjá ríkisskattstjóra varðandi gjaldaárin 1992 og 1993 með bréfi, dags. 9. maí 1994. Af hálfu ríkisskattstjóra var erindinu svarað með bréfi, dags. 28. júní 1994, og segir þar meðal annars:

"Áðurgreind niðurstaða yfirskattanefndar breytir fyrri framkvæmdarreglu og gildir almennt frá og með tekjuárinu 1993, þ.e. í fyrsta sinn við álagningu 1994. Varðandi álagningu fyrir þann tíma er til þess að líta að hvorki lög né eðlileg stjórnvaldsframkvæmd standa til þess að fallast beri á skatterindi um breytingu á álagningu sem fram fór samkvæmt fastbundinni framkvæmdarreglu á afmörkuðu sviði skattlagningar. Er því ekki tilefni til að ríkisskattstjóri beiti þeirri heimild sem hann hefur til að breyta álagningu skv. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Erindinu er því synjað."

II.

Í bréfi mínu til A, dags. 30. september 1994, sagði meðal annars svo:

"Í máli þessu reynir m.a. á tvö álitaefni, sem grundvallarþýðingu hafa í stjórnsýslurétti:

1) Í fyrsta lagi reynir á það álitaefni, hvort skattgreiðandi eigi lögvarinn rétt til endurupptöku máls, þegar síðar kemur í ljós í öðru sambærilegu máli, sem lagt er t.d. fyrir æðra stjórnvald, að skattákvörðun hafi ekki verið byggð á réttum lagagrunni. Í þessu sambandi ber að líta til þess að sú skattákvörðun, sem yfirskattanefnd hnekkti er frá sama gjaldaári og sú ákvörðun, sem þér óskið breytingar á. Verði ekki orðið við erindi yðar um endurupptöku og breytingu á umræddri ákvörðun um tryggingagjaldið, er ljóst að svo getur farið, að sambærileg skattamál frá sama gjaldári fái ekki sambærilega úrlausn í lagalegu tilliti, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

2) Hvað sem líður svörum við fyrri spurningunni, reynir einnig á það álitaefni, hvort þér eigið lögvarða kröfu til endurheimtu þess fjár, sem oftekið kann að hafa verið. Í því sambandi reynir meðal annars á það atriði, hvort það verði gert að skilyrði fyrir endurheimtu hins oftekna fjár að gjaldið hafi verið greitt með fyrirvara um endurgreiðslu. Í þessu sambandi má vísa til dóma Hæstaréttar, sem ekki veita sömu svör við þeirri spurningu, en það eru dómur Hæstaréttar frá 27. febrúar 1986 (H 1986:462) og dómur Hæstaréttar frá 28. apríl 1994.

III.

Varði kvörtun réttarágreining, sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr, getur umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það skv. 3. tölul. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Umboðsmanni er jafnframt heimilt að leggja til við dóms- og kirkjumálaráðuneytið að það veiti gjafsókn í því skyni.

Þar sem mál þetta uppfyllir framangreint skilyrði og varðar réttarágreining, sem dómstólar hafa ekki tekið skýra afstöðu til, hef ég ákveðið að ljúka máli þessu með vísan til 3. tölul. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis og að mæla með því við dóms- og kirkjumálaráðherra að yður verði veitt gjafsókn til þess að bera mál þetta undir dómstóla."