A kvartaði yfir því að skattstjóri Norðurlandsumdæmis eystra lét Framleiðsluráði landbúnaðarins í té afrit af staðfestum landbúnaðarskýrslum hans vegna tekjuáranna 1995 og 1996. Það var skoðun umboðsmanns að skattstjóra hefði, á grundvelli 1. mgr. 68. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, verið heimilt að afhenda Framleiðsluráði landbúnaðarins umrædd afrit.
Vegna þeirrar skoðunar A, að umrædd lagaheimild væri fullvíðtæk, áréttaði umboðsmaður í bréfi sínu til hans þá meginreglu stjórnsýsluréttar, að opinberir starfsmenn mættu ekki í skjóli starfa sinna afla sér trúnaðarupplýsinga, sem ekki hefðu þýðingu fyrir verkefni, sem þeim væru falin í starfi. Hann taldi, að af markmiðum laga nr. 99/1993 og lögákveðnu starfssviði Framleiðsluráðs landbúnaðarins yrðu leidd ákveðin takmörk fyrir því, í hvaða skyni upplýsinga yrði aflað á grundvelli 1. mgr. 68. gr. laganna. Af gögnum málsins yrði ráðið, að upplýsinganna hefði verið aflað vegna lögboðinnar álagningar gjalda á A. Umboðsmaður taldi mál A því ekki gefa tilefni til frekari athugunar af hans hálfu.