A fékk íslenskan ríkisborgararétt á árinu 1973 og var gert að taka sér íslenskt fornafn. Á sama tíma fengu þrír synir A íslenskan ríkisborgararétt og tóku íslensk eigin- og kenninöfn. Með 2. gr. laga nr. 45/1985 og 2. gr. laga nr. 11/1987 var þeim, sem áður höfðu fengið íslenskt ríkisfang með lögum og breytt höfðu nafni sínu, heimilað að breyta nöfnunum í samræmi við ákvæði laganna og voru heimildir þessar tímabundnar. Samkvæmt þessum lögum þurftu börn manna, sem fengu íslenskt ríkisfang með lögum, aðeins að taka sér eitt íslenskt eiginnafn og gátu haldið kenninafni sínu, ef þau voru fædd áður en foreldrið öðlaðist íslenskt ríkisfang. Uppfylltu synir A þessi skilyrði. Í aprílmánuði 1988 heimilaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið A og einum sona hans nafnbreytingar eiginnafna á grundvelli laga nr. 11/1987 og öllum sonum A breytingu á rithætti kenninafns, er leiddi af ritháttarbreytingu á eiginnafni A. Áður hafði ráðuneytið synjað beiðni sona A um breytingar á kenninafni á þeim grundvelli, að ekki yrði á það fallist, að þeir gætu notað tvö kenninöfn, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 16. febrúar 1988. Umboðsmaður tók fram, að synir A hefðu átt sjálfstæðan rétt til að nýta sér heimild 2. gr. laga nr. 11/1987. Heimildin hefði hins vegar verið tímabundin og frestur liðinn í lok september 1987. Væri því ljóst, að hann gæti ekki fjallað um kvartanir þær, sem lutu að ákvörðunum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á grundvelli laga nr. 11/1987, þar sem liðinn væri sá ársfrestur, sem settur væri í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, til að bera fram kvartanir.
Með bréfi, dags. 27. ágúst 1992, synjaði dóms- og kirkjumálaráðuneytið umsókn sona A frá 11. nóvember 1991, um breytingu kenninafns, sem borin var fram á grundvelli 16. gr. laga nr. 37/1991, um mannanöfn. Byggði ráðuneytið synjun sína á því, að ekki væri lagaheimild fyrir breytingunni, þar sem lög nr. 37/1991 leyfðu ekki breytingar frá því, sem ákveðið hafði verið samkvæmt lögum þeim, sem giltu um veitingu ríkisborgararéttarins á sínum tíma og áskildu, að íslensk nöfn skyldu upp tekin samkvæmt lögum nr. 54/1925, um mannanöfn. Umboðsmaður taldi synjun ráðuneytisins hvorki byggða á ólögmætum sjónarmiðum né brjóta á annan hátt í bága við vandaða stjórnsýsluhætti. Hann vakti hins vegar athygli á umræðum á Alþingi, þar sem dóms- og kirkjumálaráðherra hefði lýst því yfir, að tekin hefði verið ákvörðun um endurskoðun laga nr. 37/1991 vegna fram kominnar gagnrýni og með tilliti til fenginnar reynslu.
Kvörtun A laut ennfremur að því, að dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefði talið, að breyting á rithætti tilgreindra eiginnafna hans og eins sonar hans hefði verið gerð án samþykkis þess, sbr. bréf ráðuneytisins, dags. 27. ágúst 1992. Þessar breytingar hafði ráðuneytið sjálft samþykkt með bréfum, dags. 13. og 19. apríl 1988. Ráðuneytið viðurkenndi þessi mistök í svarbréfi sínu til umboðsmanns og lét fylgja því bréfi ljósrit bréfa sinna til A og sonar hans, þar sem mistökin voru leiðrétt. Að því virtu taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla nánar um þessa þætti kvörtunarinnar, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis.