A kvartaði yfir þeirri ákvörðun Innkaupastofnunar ríkisins að taka ekki tilboði hans í bifreið nokkra, þar sem staðgreiðsluverðmæti þeirra húsbréfa, sem A bauð fram sem greiðslu, væri að mati stofnunarinnar lægra en hæsta tilboð í umrædda bifreið. Taldi A, að Innkaupastofnun ríkisins bæri að taka við húsbréfunum á nafnverði. Í bréfi mínu til A, dags. 4. nóvember 1991, sagði m.a. svo:
"Í fyrsta lagi vil ég taka fram, að aðeins peningaseðlar eru lögeyrir í allar greiðslur hér á landi með fullu ákvæðisverði, sbr. 3. gr. laga um gjaldmiðil Íslands nr. 22/1968. Í viðskiptum er meginreglan því sú, að menn þurfa ekki að taka við greiðslu í öðru en peningaseðlum, sbr. 4. og 6. gr. l. nr. 22/1968.
Húsbréf teljast skuldabréf skv. 53. gr. laga nr. 86/1988, sbr. d-lið 2. gr. laga nr. 76/1989. Skuldari að húsbréfum er Byggingarsjóður ríkisins, sem er ein deild Húsnæðisstofnunar ríkisins, er telst sjálfstæð ríkisstofnun, sbr. 2. og 3. gr. l. 86/1988.
Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 3. gr. reglugerðar 217/1990, sem í gildi var, er þér gerðuð tilboðið, skal hámarkslánstími húsbréfa vera 25 ár. Hins vegar ber að stuðla að því að húsbréfin séu markaðshæf, þ.e. auðseljanleg. Í því skyni er m.a. lögmælt í o-lið 2. gr. laga nr. 76/1989, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, að húsbréfadeild skuli beita sér fyrir því að bréfin séu skráð á opinberu verðbréfaþingi, þannig að daglega sé til skrá yfir viðskipti, þar sem fram komi kaup- og sölugengi húsbréfa. Samkvæmt 2. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 217/1990 er markaðsverð húsbréfa vegið meðaltal viðskipta hvers dags á Verðbréfaþingi Íslands næstliðinn dag."
Ég tjáði því A, að með vísan til ofangreindra reglna væri það niðurstaða mín, að sú ákvörðun Innkaupastofnunar ríkisins, að meta tilboð hans á grundvelli markaðsverðs umræddra húsbréfa, sbr. 2. tl. 1. gr. reglugerðar nr. 217/1990, hefði ekki verið ólögmæt, heldur í samræmi við III. kafla laga um Húsnæðisstofnun og reglugerð nr. 217/1990 um húsbréfadeild og húsbréfaviðskipti vegna kaupa eða sölu á notuðum íbúðum og kaupa, sölu eða byggingar á nýjum íbúðum. Ég tjáði því A að ég teldi ekki vera grundvöll fyrir frekari afskiptum mínum af málinu.