I.
Hinn 14. mars 1995 leituðu til mín A, og B, og kvörtuðu yfir málsmeðferð og úrlausn svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra í tilefni af kæru S frá 9. ágúst 1994, þar sem B sem deildarstjóra og A sem forstöðukonu sambýlisins að X var borið á brýn að hafa brotið rétt á J, sem bjó á sambýlinu á þeim tíma, sem kæran var lögð fram.
II.
Hinn 9. ágúst 1994 lagði S, móðir J, íbúa að sambýlinu X í Reykjavík, fram "kæru" "vegna réttindabrots á hendur J ... "
Svæðisráð Reykjavíkur í málefnum fatlaðra afgreiddi málið á fundi sínum 28. febrúar 1995.
III.
Hinn 5. apríl 1995 ritaði ég félagsmálaráðuneytinu bréf. Þar vísaði ég til þess, að í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra, kæmi fram, að svæðisráð skyldi fjalla um kvartanir og athugasemdir, sem bærust því skriflega. Þá segði í ákvæðinu, að teldi svæðisráð umkvörtun eiga við rök að styðjast, skyldi það beina þeim tilmælum til viðkomandi aðila að leita leiðréttingar. Með vísan til 7. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, óskaði ég þess, að félagsmálaráðuneytið léti mér í té upplýsingar um það, hvort það liti svo á, að svæðisráð málefna fatlaðra í Reykjavík hefði tekið stjórnvaldsákvörðun í máli A og B. Þá óskaði ég skýringa ráðuneytisins á orðalaginu "hlutaðeigandi stjórnvalds" í lokamálslið 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1992 og á því, hvað ráðuneytið teldi að væri hlutaðeigandi stjórnvald í því máli, er kvörtunin lyti að. Hinn 5. apríl 1995 ritaði ég einnig bréf til svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra og óskaði þess með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að það léti mér í té gögn málsins og lýsti viðhorfi sínu til kvörtunar A og B.
Í svari félagsmálaráðuneytisins, sem barst mér með bréfi, dags. 26. apríl 1995, segir meðal annars:
"Helstu verkefni svæðisráðs eru eftirlit og réttindagæsla. Þannig hefur svæðisráð eftirlit með því að þjónusta við fatlaða og rekstur stofnana fatlaðra sé í samræmi við markmið laganna. Réttindagæslan er víðtæk, bæði almenn og sértæk, sbr. trúnaðarmaður fatlaðra. Telji svæðisráð þjónustu eða aðbúnaði við fatlaðan mann vera ábóta vant gerir ráðið athugasemd með tilmælum um leiðréttingu. Svæðisráð fer ekki með framkvæmdarvald, ráðið tekur ekki ákvörðun um rétt og skyldur manna.
Svæðisráð Reykjavíkur tók mál það, sem hér er kvartað út af til athugunar og umfjöllunar, sendi það trúnaðarmanni fatlaðra og ályktaði um málið þann 28. febrúar 1995.
Það er því á misskilningi byggt, sem fram kemur í kvörtun til Umboðsmanns Alþingis, að svæðisráð hafi tekið ákvörðun í málinu þann 28. febrúar 1995. Þar var um ályktun, en ekki ákvörðun, að ræða eins og áður kom fram. Ályktun svæðisráðs var með bréfi þess, dags. 1. mars 1995 send svæðisskrifstofu málefna fatlaðra í Reykjavík.
Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið að afskipti svæðisráðs málefna fatlaðra í Reykjavík af því máli, sem hér er til umfjöllunar, feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun.
[...]
Þegar svæðisráð tekur mál til umfjöllunar í krafti eftirlits og/eða réttindagæslu skal málið sent til úrlausnar hlutaðeigandi stjórnvalds. Það fer því eftir því um hvaða málaflokk er að ræða hvert er hlutaðeigandi stjórnvald í skilningi 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993. Snúist málefnið um þjónustu eða aðbúnað við fatlaða skv. lögum um málefni fatlaðra, er hlutaðeigandi stjórnvald viðkomandi svæðisskrifstofa málefna fatlaðra og félagsmálaráðuneyti. Sé hins vegar um að ræða þjónustu skv. almennum lögum, t.d. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, lögum um heilbrigðisþjónustu eða lögum um grunnskóla, svo dæmi séu tekin, er stjórnvald sá aðili sem tekur ákvörðun í málinu innan viðkomandi málaflokks.
[...]
Hlutaðeigandi stjórnvald, varðandi sambýlið að [X], Reykjavík, eru svæðisskrifstofa málefna fatlaðra í Reykjavík og félagsmálaráðuneyti."
Svar svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra við erindi mínu frá 5. apríl 1995 barst mér með bréfi, dags. 10. maí 1995. Segir þar meðal annars:
"Kvartað er yfir ákvörðun svæðisráðs frá 28. febrúar 1995. Svæðisráð tók enga ákvörðun í þessu máli og þegar af þeirri ástæðu telur svæðisráð að kvörtunin eigi sér ekki stoð, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ályktun svæðisráðsins frá 28.2.1995 er einungis álit þess á málinu og ráðið kemur henni á framfæri við viðkomandi aðila. Svæðisráðið leit svo á að bréf [S] dags. 9. ágúst 1994 væri kvörtun en ekki kæra og vann að málinu í samræmi við það.
Viðhorf svæðisráðsins til málsins að öðru leyti koma fram í ályktun þess frá 28. febrúar 1995 og er vísað til hennar og fylgir hún hér með. Svæðisráðinu er ljóst að ágreiningur verður milli aðila og atburðarás verður á þann veg að trúnaðarbrestur verður og [J] telur sig ekki eiga annarra kosta völ en flytja af heimili sínu."
Hinn 7. júlí 1995 bárust mér athugasemdir A og B við ofangreind bréf félagsmálaráðuneytisins og svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra.
IV.
Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, verður almennt ekki kvartað til umboðsmanns Alþingis, fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í máli.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, fer félagsmálaráðherra með yfirstjórn málefna fatlaðra samkvæmt lögunum. Samkvæmt 55. gr. laganna hefur félagsmálaráðherra heimild til þess að setja reglugerð um framkvæmd laganna. Í 5. mgr. 6. gr. laganna kemur fram, að félagsmálaráðherra setji reglugerð um störf svæðisráða. Á grundvelli framangreindra heimilda hefur félagsmálaráðherra sett reglugerð nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra.
Samkvæmt meginreglum íslenskrar stjórnskipunar fara ráðherrar ávallt með yfirstjórn stjórnsýslunnar, nema hún sé að lögum undanskilin. Ráðherra getur því ekki með reglugerð eða öðrum stjórnvaldsfyrirmælum undanskilið stjórnvöld yfirstjórn sinni og þar með stjórnskipulegri ábyrgð gagnvart Alþingi. Slíkt verður aðeins gert með lögum innan þeirra marka, er stjórnarskrá og stjórnskipunarvenjur setja.
Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 142/1993 segir, að svæðisráð sé sjálfstætt fjölskipað ráð. Þrátt fyrir að hlutverk og skipan svæðisráðs sé með þeim hætti, að ekki teldist óeðlilegtað svæðisráð hefði þessa stöðu, þá verður þessi stjórnsýslulega staða svæðisráðs hvorki ráðin af ákvæðum laga nr. 59/1992 né lögskýringargögnum. Af þeim sökum fer um stöðu svæðisráðs eftir fyrrnefndri meginreglu. Að gildandi lögum er svæðisráð málefna fatl-aðra því lægra sett gagnvart félagsmálaráðuneytinu og sætir því meðal annars eftirliti þess.
Þar sem í máli þessu reynir á álitaefni, sem almenna þýðingu hafa fyrir störf og málsmeðferð svæðisráða málefna fatlaðra, hef ég ákveðið með vísan til heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987 að fjalla að eigin frumkvæði um málið, þótt það hafa ekki verið borið formlega undir úrskurð félagsmálaráðuneytisins, en viðhorf ráðuneytisins liggja fyrir í málinu.
V.
Lög nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, leystu af hólmi samnefnd lög nr. 41/1983 ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 59/1992 fer félagsmálaráðherra með yfirstjórn málefna fatlaðra. Samkvæmt 6. gr. laganna skal starfa svæðisráð á hverju starfssvæði málefna fatlaðra sbr. 5. gr., er meðal annars hafi það verkefni, sbr. 4. tölul. 2. mgr. 6. gr., að annast réttindagæslu fatlaðra skv. XV. kafla laganna, þar á meðal að fatlaðir fái þá þjónustu, sem þeir eiga rétt á. Í svæðisráði sitja sjö fulltrúar, skipaðir af ráðherra til fjögurra ára í senn, sbr. 3. mgr. 6. gr. Í svæðisráði skulu sitja einn fulltrúi frá landssamtökunum Þroskahjálp, einn frá Öryrkjabandalaginu, þrír frá svæðisbundnum samtökum sveitarfélaga, þar af einn félagsmálastjóri á svæðinu, auk fræðslustjóra og héraðslæknis. Samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 59/1992 setur félagsmálaráðherra reglugerð um störf svæðisráða, sbr. reglugerð nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra.
Svo sem kemur fram í athugasemdum við frumvarp það, er varð að lögum nr. 59/1992, voru þau verkefni, er svæðisstjórnir í málefnum fatlaðra höfðu með höndum samkvæmt lögum nr. 41/1983, greind í tvennt í lögum nr. 59/1992, framkvæmd þjónustu og rekstur annars vegar og eftirlit, samræmingu og réttindagæslu hins vegar. Þáverandi skrifstofur svæðisstjórna voru nú nefndar skrifstofur í málefnum fatlaðra og fengu það verkefni að annast rekstur stofnana á vegum ríkisins. Hins vegar komu svæðisráð í stað þáverandi svæðisstjórna og fengu það verkefni að leggja fram tillögur um þjónustu, hafa eftirlit með framkvæmd hennar og samræmingu ásamt réttindagæslu fatlaðra (Alþt. 1991, A-deild, bls. 2446).
Í XV. kafla laga nr. 59/1992 greinir nánar frá hlutverki svæðisráðs í málefnum fatlaðra að því er snertir réttindagæslu fatlaðra. Svæðisráð skulu standa vörð um rétt fatlaðra til þjónustu samkvæmt lögunum og öðrum lögum eftir því sem við á, sbr. 36. gr., og skulu starfsmenn, sem sinna þjónustu við fatlaða og starfa á stofnunum fatlaðra, standa vörð um hagsmuni þeirra og gæta þess að réttindi þeirra séu virt. Þá segir í 37. gr. laganna:
"Í því skyni að treysta réttindi fatlaðra einstaklinga á heimilum fatlaðra skv. 3.-6. tölul. 10. gr. á sviði einkalífs og meðferðar fjármuna þeirra skulu svæðisráð skipa sérstakan trúnaðarmann fatlaðra á hverju svæði.
Trúnaðarmaður fylgist með högum hinna fötluðu og skulu forstöðumenn viðkomandi heimila veita honum nauðsynlegar upplýsingar þar að lútandi. Sé um að ræða skráðar upplýsingar um persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða skal leitað eftir samþykki hans.
Telji hinn fatlaði að réttur hans sé fyrir borð borinn getur hann tilkynnt það trúnaðarmanni sem veitir honum nauðsynlegan stuðning og kannar málið tafarlaust. Að lokinni könnun metur trúnaðarmaður hvort málið skuli lagt fyrir svæðisráð. Sama gildir telji trúnaðarmaður að réttur hins fatlaða sé ekki virtur.
Telji aðstandendur fatlaðra, hagsmunasamtök fatlaðra eða aðrir sem láta sig hag fatlaðra varða að réttur fatlaðra á heimili fatlaðra skv. 3.-6. tölul. 10. gr. sé ekki virtur skal tilkynna það trúnaðarmanni sem kannar málið tafarlaust. Að lokinni könnun metur trúnaðarmaður hvort málið skuli lagt fyrir svæðisráð.
Svæðisráð sér um að mál samkvæmt þessari grein fái þá meðferð sem við á hverju sinni, lögum samkvæmt. Trúnaðarmaður veitir hinum fatlaða stuðning við meðferð málsins sé þess óskað."
Í athugasemd við 37. gr. í frumvarpi til laga nr. 58/1992 segir meðal annars:
"Hér er lagt til það nýmæli að kveða sérstaklega á um réttindagæslu fatlaðra í lögum. Í greininni er fjallað um réttindagæslu almenns eðlis. Þar er í raun ekki nýjung á ferðinni heldur er verið að lögfesta þann skilning sem ríkt hefur á gildandi lögum um málefni fatlaðra, þann að svæðisstjórnir (svæðisráð samkvæmt frumvarpinu) skuli gæta þess að fatlaðir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Rétt þykir að lögfesta þetta mikilvæga atriði, annars vegar til að taka af öll tvímæli um hverjum beri þetta verkefni og hins vegar til þess að leggja áherslu á það vægi sem verkefni þetta á að hafa hjá svæðisráði, sbr. einnig 4. tölul. 6. gr. frumvarpsins." (Alþt. 1991, A-deild, bls. 2468.)
Þá segir svo í athugasemdum við frumvarpið um réttindagæslu svæðisráðs:
"Með réttindagæslu er átt við að fylgst sé með því að fatlaðir njóti lagalegs réttar síns, að ljóst sé hvernig með skuli fara leiki grunur á að brotinn sé réttur á hinum fatlaða og að hann fái notið aðstoðar til að leita réttar síns." (Alþt. 1991, A-deild, bls. 2449.)
Í 7. gr. reglugerðar nr. 142/1993 er fjallað um sérstaka réttindagæslu svæðisráðs og trúnaðarmann fatlaðra, sbr. 3.-4. mgr. 37. gr. laga nr. 59/1992. 6. gr. reglugerðarinnar lýtur að almennri réttindagæslu og segir þar í 1.-2. mgr.:
"Svæðisráð annast almenna réttindagæslu, sbr. 36. gr. laga um málefni fatlaðra. Með almennri réttindagæslu er átt við eftirlit með því að fatlaðir fái þá þjónustu sem þeir eiga rétt á bæði almenna þjónustu, svo og sértæka þjónustu sem ætluð er fötluðum eingöngu.
Svæðisráð skal fjalla um kvartanir og athugasemdir sem berast því skriflega. Telji svæðisráð að umkvörtun eigi við rök að styðjast skal það beina þeim tilmælum til viðkomandi aðila að leita leiðréttingar. Beri sú málaleitan ekki árangur skal málið sent til úrlausnar hlutaðeigandi stjórnvalds."
Svæðisráð skal, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar, hafa samvinnu við svæðisskrifstofur í störfum sínum. Það á þó ekki við í þeim tilvikum, "þar sem slík samvinna getur ekki átt sér stað eðli máls samkvæmt, sbr. eftirlit svæðisráðs með þjónustu á vegum svæðisskrifstofu og stofnana á vegum hennar, svo og réttindagæslu svæðisráðs".
VI.
Samkvæmt 3. mgr. 37. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, sbr. 3. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra, getur fatlaður maður, aðstandandi hans, hagsmunasamtök, eða aðrir, sem láta sig hag hins fatlaða varða, tilkynnt trúnaðarmanni fatlaðra, ef þeir telja að réttur fatlaðs manns sé fyrir borð borinn. Ber þá trúnaðarmanni fatlaðra að veita hinum fatlaða nauðsynlegan stuðning. Jafnframt skal hann rannsaka málið. Í því skyni skulu forstöðumenn viðkomandi heimila veita honum nauðsynlegar upplýsingar, þ.m.t. um hagi hins fatlaða. Sé um að ræða skráðar upplýsingar um persónuleg atriði eða upplýsingar um einkafjármuni hins fatlaða, skal þó leita eftir samþykki hins fatlaða, áður en slíkar upplýsingar eru veittar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laga nr. 59/1992.
Samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar getur trúnaðarmaður leitað sátta og reynt á annan hátt að miðla málum. Þegar ekki næst að ljúka máli með þeim hætti, leggur trúnaðarmaður fatlaðra málið fyrir svæðisráð málefna fatlaðra, telji hann, að réttur hins fatlaða sé ekki virtur eða að rétt sé að leggja málið fyrir svæðisráðið af öðrum ástæðum. Tekur svæðisráð þá málið til afgreiðslu. Við meðferð málsins hjá svæðisráði skal trúnaðarmaður veita hinum fatlaða stuðning, sé þess óskað, sbr. 2. málsl. 5. mgr. 37. gr. laga nr. 59/1992. Telji svæðisráð að lokinni rannsókn máls, að réttur sé brotinn á fötluðum manni eða hagur hans sé að öðru leyti fyrir borð borinn, skal svæðisráð beina tilmælum, um að rétta hlut hins fatlaða, til þess stjórnvalds, sem er bært að lögum til að leysa úr málinu. Verði hlutaðeigandi stjórnvald ekki við því, getur svæðisráð meðal annars sent málið til æðra stjórnvalds til úrlausnar, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993.
Hvorki í lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, né reglugerð nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra, er fjallað um þær málsmeðferðarreglur, sem svæðisráði málefna fatlaðra ber að fylgja við meðferð slíkra mála. Það ræðst meðal annars af hlutverki og því valdi, sem svæðisráði fatlaðra er fengið í lögum, hvaða málsmeðferðarreglum því sé skylt að fylgja. Þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir, ber þeim að fylgja ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Hvorki verður ráðið af 36. eða 37. gr. laga nr. 59/1992, né lögskýringargögnum, að svæðisráði sé ætlað að taka stjórnvaldsákvörðun í slíkum málum. Í 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993, sem fjallar um réttindagæslu svæðisráðs, kemur fram, að svæðisráð fjalli í slíkum málum um "kvartanir og athugasemdir". Þar sem ástæða sé til aðgerða, beini svæðisráð "tilmælum" til viðkomandi aðila um leiðréttingu mála. Af ákvæðum reglugerðar nr. 142/1993 virðist ljóst, að svæðisráði málefna fatlaðra sé ekki að lögum ætlað vald til þess að taka bindandi ákvarðanir um réttindi eða skyldur manna. Gilda því ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki um málsmeðferð svæðisráðs í slíkum málum.
Ekki verður dregin sú ályktun, að svæðisráði beri ekki að fylgja ákveðnum málsmeðferðarreglum við meðferð slíkra mála, þótt stjórnsýslulög eigi við og ekki sé sérstaklega kveðið á um málsmeðferðarreglur í lögum nr. 59/1992 eða reglugerð nr. 142/1993. Í 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra, kemur fram, að telji svæðisráð, að umkvörtun "eigi við rök að styðjast", skuli það beina tilmælum til viðkomandi aðila um úrbætur. Af orðalagi ákvæðisins virðist ljóst, að gengið er út frá því að rannsókn fari fram á því, hvort kvartanir eigi "við rök að styðjast". Er því ljóst, að svæðisráði ber í störfum sínum að fylgja þeirri meginreglu, sem liggur til grundvallar 10. gr. stjórnsýslulaga, þ.e. rannsóknarreglunni.
Ljóst er, að í sumum málum er rannsókn og úrlausn á því, hvort réttur hafi verið brotinn á fötluðum manni, óhjákvæmilega samofin þeirri spurningu, hvort starfsmaður hafi sinnt starfsskyldum sínum. Þegar svo stendur á, tel ég, að veita beri starfsmanni, sem sakaður er um að hafa brotið rétt á fötluðum einstaklingi með athöfnum sínum eða athafnaleysi, sérstakt færi á að tjá sig um málið, áður en svæðisráð lýkur athugunum sínum og meðferð málsins, enda er almennt ekki hægt að fullyrða að mál hafi verið rannsakað nægilega, fyrr en starfsmanni hefur verið gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum um málsatvik, þegar svo stendur á.
Í tilefni af þeirri kvörtun, sem hér er til umfjöllunar, er ekki ástæða til að víkja að öðrum óskráðum meginreglum, sem gilda kunna við meðferð mála skv. 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993, um svæðisráð málefna fatlaðra.
VII.
Um einstök atriði í kvörtun A og B segir svo í álitinu:
"1. Niðurstaða ályktunar svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra.
A og B kvarta í fyrsta lagi yfir því, að með niðurstöðu sinni hafi svæðisráðið vegið ómaklega að starfsheiðri þeirra.
S, móðir J, auðkenndi erindi sitt til svæðisráðs sem "kæru". Þá kom fram í erindinu að "kæran" væri á hendur forstöðukonu og deildarstjóra umrædds sambýlis, þ.e. A og B.
Í skýringum svæðisráðs kemur fram, að hinn 30. september 1994 hafi formaður svæðisráðs rætt við S og tjáð henni, að um málið yrði eingöngu fjallað sem "kvörtun" á grundvelli XV. kafla laga nr. 59/1992 og 6. gr. reglugerðar nr. 142/1993. Í gögnum málsins kemur ekki fram, hvort A og B var einnig leiðbeint um þetta atriði.
Þegar svæðisráðið lauk athugunum sínum á málinu með ályktun sinni frá 28. febrúar 1995, hafði það gerst, að J var flutt út af sambýlinu að X og fyrir lá að henni hafði boðist búseta í íbúð, þar sem meiri áhersla yrði lögð á að sinna sérþörfum hennar. Fram kemur í bréfi A og B, svo og bréfi svæðisráðs, að fyrir hefði legið, að sambýli hefði ekki verið heppilegt búsetuform fyrir J, meðal annars með tilliti til fötlunar hennar og þarfa, en hún er daufblind og auk þess mikið hreyfihömluð. Þar sem framtíðarlausn var því í sjónmáli, sem hentaði betur þörfum J, og ljóst var, að hún flyttist ekki á ný í sambýlið að X, var af þessum sökum ekki þörf á því að leyst yrði úr kvörtunarefnum þeim, sem S hafði borið fram og snertu beint störf A og B, með tilliti til starfssviðs og hlutverks svæðisráðs.
Með tilliti til skýringa svæðisráðs, skil ég ályktun ráðsins frá 28. febrúar 1995 svo, að það hafi ekki tekið formlega afstöðu til þeirra kvörtunarefna, sem sett voru fram af S með bréfi, dags. 9. ágúst 1994, og snertu beint störf A og B, með tilliti til þess hvernig málið hafði þá þróast. Samkvæmt framansögðu tel ég ekki tilefni til athugasemda við þessa afstöðu svæðisráðsins, en tel að réttara hefði verið að hún hefði komið skýrar fram í ályktun svæðisráðsins.
Að framansögðu athuguðu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, tel ég ekki tilefni til að fjalla nánar um efni ályktunar svæðisráðs, sem rakin er í II. kafla hér að framan, fyrir utan eitt atriði.
Í ályktun svæðisráðs kemur fram, að "svæðisráð [feli] trúnaðarmanni fatlaðra í Reykjavík að fylgjast sérstaklega með hag íbúa sambýlisins að [X]." Ég skil kvörtun A og B svo, að þær hafi talið, að með þessu hefði svæðisráð ákveðið að grípa til sérstakra aðgerða í tilefni af kvörtun S yfir ætluðum brotum þeirra á J. Í skýringum svæðisráðs kemur aftur á móti fram, að þessi setning hafi verið misskilin. Af hálfu svæðisráðs er því haldið fram, að ætlunin hafi einungis verið að árétta lögbundið hlutverk trúnaðarmanns fatlaðra, sem fram komi í 2. mgr. 37. gr. laga nr. 59/1992 og 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 142/1993.
Ég tel, að rétt hefði verið að láta það koma skýrt fram, ef einungis var ætlunin að árétta lögmælt hlutverk trúnaðarmanns, þar sem þessi setning gat misskilist svo, með tilliti til forsögu málsins, að ákveðið hefði verið að grípa til sérstakra ráðstafana, þar sem talið væri að ásakanir þær, er fram komu í erindi S, ættu við rök að styðjast að mati svæðisráðs.
2. Rannsókn málsins.
Þá kvarta A og B yfir því, að málið hafi ekki verið nægilega rannsakað, áður en svæðisráð fatlaðra lauk afgreiðslu sinni á málinu með ályktun sinni hinn 28. febrúar 1995.
Samkvæmt gögnum málsins átti trúnaðarmaður tal við J og S hinn 16. júní 1994. Í því viðtali báru þær fram kvartanir við trúnaðarmann, sem hóf af því tilefni könnun málsins. Þessari kvörtun fylgdi S eftir með bréfi, dags. 9. ágúst 1994, til svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra. Á fundi svæðisráðs hinn 6. október 1994 fól það trúnaðarmanni að kanna málið enn frekar. Hinn 13. október 1994 ræddi trúnaðarmaður fatlaðra við A um kvörtun J og S. Þá var haldinn fundur um málið á svæðisskrifstofu Reykjavíkur í málefnum fatlaðra og sátu meðal annarra fundinn framkvæmdastjóri skrifstofunnar, A, trúnaðarmaður fatlaðra og formaður svæðisráðs.
Að framansögðu athuguðu og með tilliti til þess, á hvaða grundvelli úr málinu var leyst, sbr. það sem segir í VII. kafla 1, tel ég ekki tilefni til athugasemda við rannsókn málsins.
3. Andmælaréttur.
Loks kvarta A og B yfir því, að þeim hafi ekki gefist kostur á að tjá sig um málið, áður en svæðisráð lauk afgreiðslu sinni á málinu með ályktun hinn 28. febrúar 1995.
Eins og greinir í VI. kafla hér að framan, tel ég, að veita beri starfsmanni, sem sakaður er um að hafa brotið rétt á fötluðum einstaklingi með athöfnum sínum eða athafnaleysi, sérstakt færi á að tjá sig um málið, áður en svæðisráð afgreiðir mál, enda er almennt ekki hægt að fullyrða að mál hafi verið rannsakað nægilega, fyrr en starfsmanni hefur verið gefinn kostur á að koma að sínum viðhorfum um málsatvik, þegar svo stendur á.
Eins og áður segir, tók svæðisráð ekki efnislega afstöðu til þess, hvort ásakanir í garð A og B væru á rökum reistar. Með tilliti til þess, á hvaða grundvelli málið var leyst, sbr. VII. kafla 1, hvíldi af þeirri ástæðu ekki skylda á svæðisráðinu til þess að veita A og B færi á að tjá sig um málið, áður en því var til lykta ráðið.
Ég tel rétt að taka fram, að samkvæmt gögnum málsins, er ljóst, að A var kynnt málið 13. október 1994. Þá sat hún fund um málið hinn 6. janúar 1995, eins og nánar greinir í VII. kafla 2. Hinn 31. janúar 1995 fékk hún afrit af bréfi S. Loks kemur fram í kvörtun A, að hún hafi verið boðuð á fund hinn 2. febrúar 1995 og fengið sérstakt færi á að tjá sig um meintar ávirðingar, sem fram komu í bréfi S.
Samkvæmt framansögðu verður að telja, burtséð frá því, hvernig úr málinu var leyst, að A hafi fengið viðhlítandi tækifæri til þess að tjá sig um málið."
VIII.
Um hlutverk svæðisráðs málefna fatlaðra og málsmeðferð fyrir ráðinu segir svo í álitinu:
"Hlutverk svæðisráðs málefna fatlaðra er meðal annars að hafa eftirlit með því að réttindi fatlaðra séu virt og þeir fái þá þjónustu, sem þeir eiga rétt á, sbr. XV. kafla laga nr. 59/1992 og 6.-7. gr. reglugerðar nr. 142/1993. Til þess að stuðla að því, að svæðisráð sé betur fært um að standa vörð um hagsmuni fatlaðra, tel ég æskilegt, að tekið verði til athugunar, hvort ekki sé rétt að setja skýr ákvæði um málsmeðferð svæðisráðs í reglugerð nr. 142/1993, svo ekki valdi vafa, hvernig standa beri að rannsókn og meðferð þeirra mála um réttindagæslu fatlaðra, sem ekki næst að leysa með sátt."
Af þessu tilefni er athygli félagsmálaráðherra vakin á málinu með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 11. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis.
IX.
Niðurstöðu álits míns, dags. 15. febrúar 1996, dró ég saman með svofelldum hætti:
"Niðurstaða.
Það eru helstu niðurstöður mínar í máli þessu, að með tilliti til skýringa svæðisráðs Reykjavíkur í málefnum fatlaðra verði að telja, að með ályktun sinni frá 28. febrúar 1995 hafi ráðið ekki tekið formlega afstöðu til þeirra kvörtunarefna, sem sett voru fram af S með bréfi, dags. 9. ágúst 1994, og snertu beint störf A og B. Ég tel aftur á móti, að ályktun svæðisráðs hafi ekki verið orðuð með nægilega skýrum hætti og gat hún því misskilist.
Til þess að stuðla að því, að svæðisráð sé betur fært um að standa vörð um hagsmuni fatlaðra, tel ég æskilegt, að tekið verði til athugunar, hvort ekki sé rétt að setja skýr ákvæði um málsmeðferð svæðisráðs í reglugerð nr. 142/1993, svo ekki valdi vafa, hvernig standa beri að rannsókn og meðferð þeirra mála um réttindagæslu fatlaðra, sem ekki næst að leysa með sátt.
Af þessu tilefni er athygli félagsmálaráðherra vakin á málinu með vísan til 11. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, og 11. gr. reglna nr. 82/1988, um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis."
X.
Með bréfi, dags. 29. ágúst 1996, óskaði ég eftir upplýsingum félagsmálaráðherra um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í tilefni af fyrrgreindu áliti mínu. Félagsmálaráðuneytið svaraði fyrirspurn minni með bréfi, dags. 23. september 1996. Þar kom fram, að þar sem endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra stæði yfir og gert væri ráð fyrir verulegum breytingum á ýmsum ákvæðum laganna, þar með talið ákvæðum um svæðisráð og hlutverk þeirra, teldi ráðuneytið ekki ástæðu til breytinga á reglugerð nr. 142/1993, um svæðisráð, fyrr en nefnd sú, sem endurskoðaði fyrrgreind lög hefði lokið störfum.
Fyrrgreint frumvarp var samþykkt sem lög nr. 161/1996, um breytingu á lögum um málefni fatlaðra, nr. 59/1992. Er þar ekki tekið á ákvæðum um málsmeðferð svæðisráðs.
Með bréfi, dags. 9. maí 1997, óskaði ég á ný eftir upplýsingum félagsmálaráðherra um, hvort einhverjar ákvarðanir hefðu verið teknar í framhaldi af áliti mínu. Svar félagsmálaráðuneytisins er dagsett 10. júní 1997. Þar segir meðal annars:
"Í bréfi ráðuneytisins dags. 23. september 1996 kom fram að endurskoðun á lögum um málefni fatlaðra stæði yfir.
Niðurstaða af þeirri endurskoðun varð að lokum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða að flytja málaflokk fatlaðra frá ríkinu yfir til sveitarfélaga og komi yfirfærslan til framkvæmda þ. 1. janúar 1999. Að öðru leyti varð endurskoðunarnefndin sammála um að gera ekki breytingar við einstakar greinar laganna nema þar sem slíkt væri nauðsynlegt vegna annarra lagasetninga (sbr. lög nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins).
Á vegum ráðuneytisins er nú unnið að undirbúningi vegna flutnings á málaflokki fatlaðra til sveitarfélaga og í því skyni munu verkefnastjórnir taka til starfa innan tíðar.
Þar sem gert er ráð fyrir að núgildandi lög um málefni fatlaðra verði afnumin og ekki í gildi nema til ársloka 1998 telur ráðuneytið ekki brýna ástæðu til að gera breytingar nú á reglugerð um svæðisráð.
Skipunartími svæðisráða er að sjálfsögðu einungis til ársloka 1998.
Þess má geta að ráðuneytinu hafa ekki borist neinar óskir né ábendingar frá svæðisráðum um breytingar á reglugerð fyrir svæðisráð."