I.
Í bréfi mínu til A, dags. 4. janúar 1996, sagði meðal annars:
"Ég vísa til kvörtunar þeirrar, sem þér báruð fram 15. desember 1993 yfir því, að endurgreiðsla af námslánum yðar sé ekki í samræmi við lög. Teljið þér, að stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna virði ekki bráðabirgðaákvæði 3 og 4 í lögum nr. 72/1982, um námslán og námsstyrki, 32. gr. reglugerðar nr. 578/1982, um námlán og námsstyrki, og 8. gr. laga nr. 57/1976, um námslán og námsstyrki, varðandi endurgreiðslur lána yðar, sem annars vegar voru tekin og árunum 1978-82 og hins vegar á árunum 1982-1985.
Hvað varðar skýringu lánasjóðsins á 3. mgr. 8. gr. laga nr. 57/1976, þá ákvað ég, sbr. bréf mitt 21. mars 1994, að fjalla ekki um þann þátt málsins, þar sem fyrir lá, að með hann yrði farið samkvæmt dómsniðurstöðu í máli nr. E-5814/1993, er rekið var fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.
Með bréfi 21. mars 1994 óskaði ég skýringa á viðhorfi stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna til annarra þátta kvörtunar yðar. Í svarbréfi stjórnar lánasjóðsins, dags. 14. apríl 1994, segir meðal annars svo:
"[A] er að endurgreiða námslán sem tekin voru í gildistíð laga nr. 57/1976 og einnig í gildistíð laga nr. 72/1982. Um endurgreiðslur þegar svo háttar, þ.e. lánþegi skuldar bæði V-lán (skv. l. 1976) og S-lán (skv. l. frá 1982), fer skv. 4. tl. ákv. til bráðabirgða laga nr. 72/1982, sem hljóðar svo:
"Ef lánþegi Lánasjóðs skv. þessum lögum er jafnframt að inna af hendi greiðslur skv. eldri lögum dragast greiðslurnar frá þeirri upphæð sem lánþega bæri annars að greiða skv. þessum lögum."
Þetta er nánar útfært í 2. tl. ákv. til bráðabirgða í reglugerð nr. 578/1982 sem hljóðar svo:
"Ef námsmaður sem hefur tekið lán skv. þessari reglugerð er jafnframt að inna af hendi greiðslur skv. eldri lögum og reglugerðum skal árleg heildargreiðsla hans eigi vera hærri en það sem hærra er, heildargreiðsla skv. eldri ákvæðum eða heildargreiðsla skv. þessari reglugerð. Þessi heildargreiðsla bókfærist þannig að greiðsla skv. þessari reglugerð víkur fyrir greiðslu af fyrri skuld."
Heildargreiðsla [A] hefur verið ákveðin í samræmi við ofangreind ákvæði. Endurgreiðsla hennar hefur verið reiknuð út bæði skv. lögunum frá 1976 og skv. lögunum frá 1982. Heildargreiðsla hennar skv. lögunum frá 1976 reyndist vera hærri öll árin, sem hún hefur greitt af lánum sínum, nema árið 1988. Hún hefur því endurgreitt námslán sín skv. ákvæðum laganna frá 1976 að undanskildu árinu 1988."
Síðan er í bréfi lánasjóðsins rakið, hvernig endurgreiðslur yðar hafa verið ákveðnar, og tekið fram, að við útreikning af S-láni sé miðað við 3,5% af útsvarsstofni. Þá tekur lánasjóðurinn fram, að hækkandi endurgreiðslur yðar skýrist af hækkun tekna maka yðar, en skv. skilmálum laganna frá 1976 sé miðað við tekjur beggja hjóna, þegar endurgreiðslur eru ákveðnar.
Í 32. gr. reglugerðar nr. 578/1982 er kveðið á um, hvernig fara skuli með endurgreiðslur, þegar lántakandi hefur nám að nýju:
"Nú byrjar lánþegi lánshæft nám að nýju eftir að fyrra námi telst lokið skv. 29. gr. um námslok. Er þá heimilt að veita honum undanþágu frá endurgreiðslum af fyrri skuld meðan síðara námið stendur yfir, sbr. 36. grein. Námsmanni reiknast síðan önnur heildarskuld vegna síðara námsins og fer um greiðslur af henni eins og um sjálfstætt lán væri að ræða nema hvað heildarendurgreiðslur á hverju ári skulu aldrei vera meiri en kveðið er á um í 30. og 31. grein og víkur greiðsla af síðari skuld þá fyrir greiðslu af fyrri skuld þar til hún er að fullu greidd."
Um þetta ákvæði segir í bréfi lánasjóðsins:
"Það á eingöngu við um þau tilvik, þegar greitt er af lánum sem tekin voru skv. lögunum frá 1982. Ef námsmaður, sem er byrjaður að endurgreiða af láni, hefur nám að nýju, fær hann frest á endurgreiðslum meðan hann stundar síðara námið. Að því loknu reiknast honum ný skuld við sjóðinn, samanlögð eldri og yngri lán. Heildargreiðsla af þeirri skuld verður aldrei hærri en 3,75% af útsvarsstofni. Þetta á ekki við um [A], þar sem hún var einnig að greiða V-lán sem voru tekin á gildistíma eldri laga og gilda því aðrar reglur um endurgreiðslu hennar sbr. ofanritað."
Samkvæmt ákvæði 3 til bráðabirgða í lögum nr. 72/1982, sbr. ákvæði 1 til bráðabirgða í reglugerð nr. 578/1982, skal hundraðshluti árlegrar endurgreiðslu samkvæmt 3. mgr 8. gr. fyrrgreindra laga og 31. gr. reglugerðarinnar vera 3,5%, ef námsmaður hefur fengið meira en helming af raunvirði námslána sinna fyrir 1. janúar 1984, þegar hlutfall af reiknaðri fjárþörf námsmanna nær 100%.
Um þann þátt kvörtunar yðar er snýr að þessu ákvæði, segir í bréfi lánasjóðsins:
"Þegar heildarendurgreiðsla [A] var ákveðin þá hefur verið miðað við 3,5% af útsvarsstofni hennar, skv. lögum frá 1982 sbr. framanritað. Þar sem sú endurgreiðsla hefur oftast reynst lægri en útreiknuð heildarendurgreiðsla skv. lögunum frá 1976, þá hefur áðurnefnd útreikningsregla þeirra laga verið notuð. Ef [A] hefði ekki einnig tekið lán skv. lögum frá 1976 væri heildarendurgreiðsla hennar 3,5% af útsvarsstofni sbr. 3. tl. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 72/1982 og 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 578/1982."
Niðurstaða Lánasjóðs íslenskra námsmanna í umræddu bréfi hljóðar svo:
"Þegar V-lán [A] er fullgreitt, greiðir hún einungis skv. skilmálum S-láns eða 3,5% af útsvarsstofni, þar til námslán hennar er að fullu greitt sbr. ofanritað.
Endurgreiðslur [A] eru háar en það skýrist af því að tekjur hennar og maka hennar eru háar en það var einmitt tilgangur laganna bæði frá 1976 og 1982 að tekjutengja endurgreiðslur þannig að þeir lánþegar sem hefðu háar tekjur greiddu lán sín hraðar til baka en þeir tekjulægri.
Endurgreiðslur [A] eru skv. ofanrituðu í fullu samræmi við lög nr. 72/1982, sbr. reglugerð nr. 578/1982, sbr. lög nr. 57/1976.""
II.
Í bréfi mínu til A tjáði ég henni eftirfarandi niðurstöðu mína í málinu:
"Í 32. gr. reglugerðar nr. 578/1982 er, eins og áður greinir, fjallað um það, hvernig fara skuli með endurgreiðslur, þegar lántakandi hefur hafið nýtt nám samkvæmt skilgreiningu laganna. Ákvæði þetta er í þeim kafla laganna, þar sem fjallað er um endurgreiðslu námslána, sem veitt eru samkvæmt lögunum. Er þar ekki vikið að því, hvernig fara skuli með endurgreiðslur, þegar lán vegna fyrra náms er tekið í tíð eldri laga. Með hliðsjón af framangreindu, auk þess sem sérstaklega er fjallað um endurgreiðslur lána lántakanda, sem tekið hefur lán samkvæmt eldri og yngri lögum í bráðabirgðaákvæði laga nr. 72/1982, er það skoðun mín, sem er í samræmi við afstöðu stjórnar lánasjóðsins, að ákvæði 32. gr. eigi eingöngu við um lán, sem tekin eru samkvæmt lögum nr. 72/1982.
Jafnframt því sem lög nr. 72/1982 kveða svo á, að endurgreiðsluhlutfall skuli vera 3,75%, gera þau ráð fyrir því að námslán, sem fyrir gildistöku laganna námu 85% af reiknaðri fjárþörf námsmanna, hækki í áföngum í 100% í þremur jöfnum áföngum, þannig að 100% markinu verði náð í janúar 1994. (Alþt. 1981, A-deild, bls. 1034.) Í athugasemdum með lagafrumvarpinu segir:
"Vegna þess að hlutfallstalan 3,75% miðast við að fjárþörf námsmanna sé brúuð 100% er eðlilegt að þeir, sem fá meira en helming af námslánum skv. 85%-, 90%- og 95%- reglu, greiði heldur lægri hundraðshluta af tekjum sínum til sjóðsins, sbr. bráðabirgðaákvæði 3." (Alþt. 1981, A-deild, bls. 1038.)
Tilgangur ákvæðisins er því að koma til móts við þá, sem samkvæmt endurgreiðslureglum laganna ber annars að greiða 3,75% af tekjum sínum, en hafa ekki notið lána miðað við 100% fjárþörf. Með vísun til framangreinds og þess að endurgreiðslureglur laga nr. 57/1976 kveða á um enn lægri hlutfall afborgana, tel ég ljóst, að hlutfallstalan 3,5%, samkvæmt bráðabirgðaákvæði 3 í lögum nr. 58/1982, eigi ekki við um endurgreiðslu námslána, sem tekin eru samkvæmt eldri lögum.
Í bréfi yðar 13. júlí 1994 greinið þér réttilega frá því, að gert var ráð fyrir þyngri greiðslubyrði af lánum samkvæmt nýrri lögunum en þeim eldri. Teljið þér það því ekki hafa verið vilja löggjafans, að endurgreiðslur samkvæmt eldri lögum gætu verið hærri en samkvæmt þeim nýrri. Í lögum nr. 72/1982 var endurgreiðsluhlutfall verulega hækkað frá því, sem eldri lög kváðu á um. Tel ég framangreinda staðreynd skýra ummæli alþingismanna í umræðum um frumvarp laganna á Alþingi, fremur en að í þeim komi fram viljaafstaða þingmanna hvað endurgreiðslu eldri lána varðar. Með vísun til framangreinds tel ég bráðabirgðaákvæði 2 í reglugerð nr. 578/1982, sem stendur til fyllingar 4. bráðabirgðaákvæði laganna frá 1982, þar sem beinlínis er gert ráð fyrir að greiðslur samkvæmt eldri lögum eigi sér stað, án þess að lagt sé á lántakendur að greiða bæði lánin í einu, ekki í ósamræmi við lögin.
Eins og fram hefur komið hér að framan, er endurgreiðsluhlutfall samkvæmt lögunum frá 1982 hærra en það var samkvæmt lögunum frá 1976. Afborganir samkvæmt nýrri lögunum eru því að öllu jöfnu hærri en þeim eldri. Það sem gerir það að verkum að greiðslubyrði yðar af eldri lánunum er hærri en þeim nýrri, er það, að andstætt lögum 72/1982, miðast endurgreiðslur samkvæmt lögum nr. 57/1976 við vergar tekjur hjóna. Lögin frá 1982 hrófla ekki við greiðsluskilmálum eldri lána að þessu leyti.
Það er því niðurstaða mín í þessu máli, að ákvæði laga nr. 72/1982 og reglugerðar nr. 578/1982 breyti ekki endurgreiðslureglum laga nr. 57/1976 og ákvæðum skuldabréfa, sem gefin eru út samkvæmt þeim. Tel ég því afgreiðslu stjórnar Lánasjóðs íslenskra námsmanna byggjast á lagaheimild og ekki ástæðu til frekari afskipta minna af málinu, sbr. a-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis."