Svör við erindum. Aðgangur að upplýsingum.

(Mál nr. 7082/2012)

Hinn 5. júlí 2012 kvartaði A yfir því að innanríkisráðuneytið hefði ekki afgreitt beiðni, dags. 16. maí 2012, um aðgang að upplýsingum sem vörðuðu mál er laut að nánar tilgreindum embættisfærslum forstjóra Þjóðskrár Íslands.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. október 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að ráðgert væri að afgreiða erindið ekki síðar en 12. október 2012. Hinn 15. október 2012 barst umboðsmanni síðan afrit af svarbréfi innanríkisráðuneytisins til A, dags. 11. október 2012. Þar sem kvörtun A laut að því að beiðni hans hefði ekki verið svarað taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni. Hann tók þó fram að ef A gerði athugasemdir við efni bréfsins gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.