Kosningar.

(Mál nr. 7212/2012)

A kvartaði yfir útgáfu kynningarefnis sem sveitarfélögin Garðabær og Álftanes stóðu að vegna kosningar um sameiningu sveitarfélaganna. A taldi að óhlutdrægni væri ekki gætt og kynningarefnið ekki í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar og vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með hliðsjón af ákvæðum sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 um eftirlit innanríkisráðherra með sveitarfélögum og þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að bera erindið undir innanríkisráðherra áður en það kæmi til frekari umfjöllunar hjá embætti sínu. Umboðsmaður taldi ekki uppfyllt skilyrði laga til að geta tekið erindið til frekari athugunar að svo stöddu og lauk því umfjöllun sinni um það. Hann tók hins vegar fram að ef A kysi að leita með erindið til innanríkisráðherra ætti hann þess kost, að fenginni afstöðu ráðherra til erindisins, að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.