Almannatryggingar. Félagsleg aðstoð.

(Mál nr. 7189/2012)

A kvartaði yfir synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um styrk til bifreiðakaupa vegna fatlaðs sonar hans. Í erindinu kom fram að hann hefði tvívegis sótt um að hljóta styrk til bifreiðakaupa en umsóknunum hefði verið hafnað í bæði skiptin.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni með bréfi, dags. 18. október 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtun A varð ekki ráðið að hann hefði skotið ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því bresta lagaskilyrði til að geta fjallað um kvörtunina að svo stöddu, sbr. 14. gr. laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, sbr. 7. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar. Umboðsmaður lauk því athugun sinni í tilefni af kvörtun A en tók fram að ef A kysi að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar almannatrygginga ætti hann þess kost að fenginni niðurstöðu nefndarinnar í málinu að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi yrði hann ósáttur við málalyktir.