A leitaði til umboðsmanns Alþingis vegna ágreinings um sérafnotareiti íbúða í fjöleignarhúsi.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 28. september 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður tók fram að ágreiningur milli eigenda íbúða í fjölbýlishúsi væri einkaréttarlegur og félli utan starfssviðs umboðsmanns, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 85/1997. Hann benti A þó á að hún ætti þess kost að leita til kærunefndar húsamála, sbr. 80. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús. Þar sem nefndin teldist til stjórnvalda ríkisins gæti A jafnframt leitað til sín með sérstaka kvörtun að fenginni niðurstöðu nefndarinnar yrði hún ósátt við hana. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.