Kosningar.

(Mál nr. 7046/2012)

Hópur einstaklinga kvartaði yfir því hvernig staðið hefði verið að undirbúningi forsetakosninganna 2012 af hálfu yfirskjörstjórna og innanríkisráðuneytisins og krafðist leiðréttingar og/eða ógildingar kosninganna af þeim sökum. Af erindinu og meðfylgjandi gögnum var ljóst að kvörtunin laut að þeirri ákvörðun innanríkisráðuneytisins að meta framboð eins frambjóðenda ekki gilt með vísan til þess að það hefði ekki uppfyllt skilyrði 4. gr. laga nr. 36/1945, um framboð og kjör forseta Íslands, um skil á nægilegum fjölda meðmælenda og vottorði yfirkjörstjórna um kosningabærni ekki síðar en fimm vikum fyrir kjör2dag. Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. júní 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997 væru það að jafnaði einungis þeir sem teldu sig hafa orðið fyrir rangsleitni stjórnvalda sem gætu kvartað til sín yfir henni en ekki aðrir. Umboðsmaður taldi því ljóst að til þess að erindi er lyti að ákvörðun sambærilegri ákvörðun innanríkisráðuneytisins í máli viðkomandi frambjóðanda væri tækt til meðferðar af sinni hálfu yrði frambjóðandinn sjálfur að leggja fram kvörtunina. Umboðsmaður gat því ekki tekið erindið til meðferðar og lauk málinu.