A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd um réttindi og skyldur nemenda, starfrækt í Háskólanum á Akureyri, starfaði ekki á grundvelli formlegra reglna, settum af háskólaráði og auglýstum í B-deild Stjórnartíðinda, heldur á grundvelli handbókar nemenda.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður tók fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té, án þess að um væri að ræða tiltekna athöfn eða ákvörðun stjórnvalds í máli þess sem kvörtun ber fram, lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Umboðsmaður tók síðan fram að samkvæmt gögnum málsins hefði A leitað til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema með kvörtun og ekki yrði betur séð en að álitaefnið sem erindi A lyti að kynni að koma þar til umfjöllunar. Með vísan til sjónarmiða að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um kvörtunina að sinni en tók fram að A gæti leitað til sín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu áfrýjunarnefndarinnar.