Hinn 9. febrúar 2012 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu sýslumanns á máli sem varðaði umgengni við barn, en hann hafði leitað til sýslumanns 4. október 2011 og lagt fram tillögur sínar um tilhögun umgengni.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 15. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í skýringum sýslumanns komu fram upplýsingar um framgang málsins, þ. á m. að í framhaldi af viðtali við móður hefði verið talið mikilvægt að virða rétt barnsins til að tjá sig um málið, einkum í ljósi þess að það væri orðið 12 ára gamalt, og fyrirhugað væri að ræða við það 20. mars 2012. Þá kom fram að vegna mikils fjölda mála hjá embættinu væri u.þ.b. fjögurra vikna bið eftir viðtali hjá fulltrúa. Umboðsmaður tók fram að allar ákvarðanir í umgengnismálum þurfi að taka með hagi og þarfir barnsins í fyrirrúmi og eftir því sem barninu er fyrir bestu. Í því skyni sé nauðsynlegt að rannsaka mál gaumgæfilega, m.a. með því að veita öllum aðilum málsins, þ. á m. barni sem hefur til þess aldur og þroska, kost á að tjá sig. Í því ljósi og jafnframt með hliðsjón af upplýsingum um almennan málsmeðferðartíma sýslumanns taldi umboðsmaður, þrátt fyrir að hafa skilning á því að bið eftir niðurstöðu í máli gæti reynst þungbær og að hagsmunir bæði barns og foreldra stæðu til þess að sem fyrst yrði leyst úr máli af þessu tagi, að hann hefði ekki forsendur að svo stöddu til að gera athugsemdir við málsmeðferðartíma sýslumanns í málinu og lauk umfjöllun sinni um málið. Umboðsmaður tók hins vegar fram að hann hefði til skoðunar hvort rétt væri að taka málsmeðferðartíma sýslumannsembætta í umgengnismálum til athugunar á almennum grundvelli, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, og jafnframt að ef frekari óhóflegar tafir yrðu á málinu gæti A að sjálfsögðu leitað til sín að nýju.