Heilbrigðismál.

(Mál nr. 6758/2011)

A kvartaði yfir meðhöndlun sonar hennar á geðdeild Landspítala. A kvartaði einnig yfir störfum tiltekins geðlæknis sem hafði hann til meðferðar og var jafnframt ósátt við viðbrögð stjórnvalda í kjölfar andláts sonarins.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. mars 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í tilefni af fyrirspurnum umboðsmanns til stjórnvalda kom í ljós að A hafði lagt fram kvörtun hjá landlækni vegna málsins. Landlæknir skilaði álitsgerð þar sem niðurstaðan var sú að sonur A hefði fengið eðlilega meðferð hjá umræddum lækni og að ekki væri heldur hægt að áfellast lækna geðdeildar vegna þeirrar meðhöndlunar sem hann fékk þar. Álitsgerðin var veitt utan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og því voru ekki skilyrði til athugunar umboðsmanns á þeim þætti málsins.

Einnig kom í ljós að meðferð velferðarráðuneytisins á erindi A, þar sem hún gerði kröfu um greiðslu miskabóta vegna andláts sonar hennar, var ekki lokið. Umboðsmaður taldi því ekki rétt að aðhafast frekar vegna kvörtunar A að sinni en tók fram að ef óeðlilegar tafir yrðu á afgreiðslu málsins hjá ráðuneytinu gæti hún leitað til sín með sérstaka kvörtun vegna þess. Þá ákvað umboðsmaður að rita velferðarráðuneytinu bréf og benda á að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefði ráðuneytinu borið að eigin frumkvæði að áframsenda tiltekið erindi A til landlæknis og að huga yrði betur að þessu atriði í framtíðinni. Þá benti umboðsmaður ráðuneytinu á að því bæri að taka afstöðu til erindis A um greiðslu miskabóta, hvort sem það teldi rétt að framsenda erindið eða taka efnislega afstöðu til bótakröfunnar, eftir atvikum að fengnu áliti ríkislögmanns.