Hinn 13. nóvember 2011 kvartaði A yfir seinagangi umboðsmanns skuldara við að svara erindi sem hann sendi embættinu 13. apríl 2011 vegna ágreinings við fjármálafyrirtæki um kostnað af lækkun á greiðslubyrði af gengistryggðu bílaláni.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á erindinu með bréfi, dags. 6. desember 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í skýringum umboðsmanns skuldara kom fram að óskað hefði verið eftir skýringum frá fjármálafyrirtækinu 13. september og 18. nóvember 2011 en engin svör hefðu borist. Fyrirhugað væri að funda með fyrirtækinu á næstu dögum en erfitt væri að fjalla um erindið þar sem afstaða fyrirtækisins og skýringar lægju ekki fyrir. Þá kom fram að A hefði verið boðið á fund 28. nóvember 2011 þar sem farið var yfir tiltekin atriði. Þar sem málið virtist komið í ákveðinn farveg lauk umboðsmaður athugun sinni en tók fram að A gæti leitað til sín á ný ef frekari óeðlilegar tafir yrðu á málinu.