A og B kvörtuðu yfir ákvörðun innanríkisráðuneytisins um að vísa frá kæru á málsmeðferð og ákvörðun undirbúningsnefndar sveitarfélags vegna útboðs á skólaakstri, samþykktri á sveitarstjórnarfundi, um að binda samþykki tilboðs bjóðanda við það að B hefði ekki með höndum neinn skólaakstur og A einungis á einni tilgreindri akstursleið.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Innanríkisáðuneytið vísaði málinu frá á þeim grundvelli að kærunefnd útboðsmála hefði fellt úr gildi ákvörðun sveitarfélagsins um að ganga að tilboðinu og því hefðu A og B enga lögvarða hagsmuni af efnislegum úrskurði um gildi ákvörðunarinnar. Þrátt fyrir að niðurstaða kærunefndarinnar hefði ekki verið reist á því að skilyrðin sem lutu að A og B hefðu verið ólögmæt gerði umboðsmaður ekki athugasemdir við þá niðurstöðu ráðuneytisins að vísa málinu frá. Í ljósi þess og þar sem ráðuneytið taldi, í tilefni af fyrirspurnum umboðsmanns vegna málsins, ástæðu til að bregðast við gagnvart sveitarfélaginu á grundvelli almennra eftirlitsheimilda sinna samkvæmt 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um kvörtunina en óskaði þess að ráðuneytið upplýsti sig um niðurstöðu athugunarinnar þegar hún lægi fyrir.