A kvartaði yfir því að efni í sjónvarpi Ríkisútvarpsins ofh. væri ekki aðgengilegt fyrir heyrnarskerta og taldi að texta þyrfti fréttir og annað íslenskt efni. Af erindinu varð ráðið að A teldi sig verða fyrir mismunun vegna heyrnarskerðingar þar sem hún hefði ekki sama aðgengi og almenningur að dagskrá sjónvarpsins. Það taldi hún vera öryggisatriði og benti á að hún greiddi útvarpsgjald.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 12. desember 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A freistaði þess að fá úrlausn fjölmiðlanefndar um kvörtunarefnið áður en hann tæki afstöðu til þess, sbr. 7., 11. og 30. gr. laga nr. 38/2011, um fjölmiðla. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en tók fram að ef A teldi sig enn beitta órétti að fengnum úrskurði nefndarinnar gæti hún leitað til sín að nýju.