Vopn.

(Mál nr. 6661/2011)

A kvartaði yfir því að ríkislögreglustjóri hefði keypt af B ehf. táragas og piparúða, en samkvæmt vopnalögum nr. 16/1998 væri öðrum en lögreglu óheimilt að flytja til landsins, framleiða eða eignast handjárn og fótajárn úr málmi eða öðru efni. Sama gilti um gasvopn og táragasvopn. Ríkislögreglustjóri hefði hins vegar tjáð í fréttatilkynningu 27. september 2011 að sérstakt leyfi ríkislögreglustjóra þyrfti til þess að flytja slíkan búnað til landsins og að hann hefði tæmandi yfirlit yfir hverjir hefðu slíka heimild. Í kvörtuninni kom fram að A hefði á árunum 2005 og 2006 skoðað möguleika á að fá umboð og leyfi til þess að taka þátt í þessum markaði en lögin hefðu verið skýr og þar með hefði ekkert orðið úr hugmyndinni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 24. október 2011, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með vísan þess að framkvæmd vopnalaga væri í höndum innanríkisráðuneytisins og að það færi með mál er vörðuðu lögreglu og löggæslu, taldi umboðsmaður rétt að A bæri umkvörtunarefni sitt undir ráðuneytið. Hann tók þó fram að ef A myndi freista þess að leita til innanríkisráðuneytisins og teldi sig enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess í málinu gæti hann leitað til sín á nýjan leik.