Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf.

(Mál nr. 6387/2011)

A kvartaði yfir ákvörðun Mannvirkjastofnunar um ráðningu í starf lögfræðings hjá stofnuninni, en A var á meðal umsækjenda um starfið.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. október 2011, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við val Mannvirkjastofnunar á sjónarmiðum sem fram komu í starfsauglýsingu enda taldi hann þau málefnaleg, m.a. þegar litið væri til eðlis starfsins. Þá fékk umboðsmaður ekki annað séð en að þau sjónarmið sem Mannvirkjastofnun kvað ákvörðun sína hafa byggst á hefðu komið fram í auglýsingunni. Jafnframt taldi hann sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það að þekking á starfssviði stofnunarinnar hefði haft mesti vægi við töku ákvörðunar um ráðninguna og þar á eftir þekking og reynsla af störfum hjá stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, enda þótt eingöngu hefði verið tekið fram í starfsauglýsingu að slík þekking og reynsla væri „æskileg“. Enn fremur taldi umboðsmaður, með hliðsjón af svigrúmi sem játa yrði veitingarvaldshafa við ráðningu í opinber störf og í ljósi fyrirliggjandi gagna og skýringa, ekki forsendur til þess að gera athugasemdir við efnislegt mat Mannvirkjastofnunar og samanburð á hæfni A og þess sem hlaut starfið. Þá taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það fyrirkomulag við ráðningarferlið að meta umsækjendur út frá fyrirfram skilgreindum viðmiðum og boða í framhaldinu þá tvo umsækjendur sem hlutu flest stig fyrir þá þætti sem lágu til grundvallar matinu í viðtöl. Í þessu sambandi hafði hann í huga að unnt var að leggja mat á þessa þætti með athugun á umsóknum og ferilskrám. Með vísan til þessa taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar að boða A ekki í viðtal í tilefni af starfsumsókn hans. Að lokum taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna rökstuðnings sem Mannvirkjastofnun veitti A vegna ráðningarinnar. Hann taldi þó að Mannvirkjastofnun hefði borið að taka skýrar fram í rökstuðningnum hvaða sjónarmið hefði haft aukið vægi við mat á umsækjendum og því ráðið úrslitum um ákvörðun um ráðninguna. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ritaði Mannvirkjastofnun bréf þar sem hann kom ábendingu á framfæri um efni rökstuðningsins.